Alamos Chardonnay 2008

Þetta argentínaska hvítvín kemur úr smiðju Nicola Catena en Alamos-lína hans er þekkt fyrir að gefa mikil gæði fyrir peninginn. Þau eru ekki síst vinsæl á Bandaríkjamarkaði og í þessu eins og sumum öðrum vínum úr þessari línu má greina greinileg „kalifornísk“ áhrif þegar kemur að víngerðarstílnum. Áherslan á að draga ávöxtinn sem mest fram. Hér er hins vegar ekki gengið eins langt í að eika vínið og í mörgum Kaliforníuvínum.

Alamos Chardonnay 2008 er bjart og ferskt hvítvín. Angan af sætum rauðum eplum og perum, hunangi og negul. Eikin er til staðar en hófstillt út í gegn. bragðmassinn er þéttur og í lokin kemur góð fersk sýra sem gefur víninu lengra líf í munni.

1.897 krónur og lækkar í 1.790 um næstu mánaðamót. Fær fjórðu stjörnuna fyrir verð/gæði.

 

Deila.