Það eru ekki mörg vín fyrirtæki, eða raunar fyrirtæki yfirhöfuð, sem geta státað af jafn stórfenglegum höfuðstöðvum og Otardkoníaksfyrirtækið. Fyrirtækið er til húsa í hinum sögufræga kastala Château de Cognac, eina kastala Cognac, og árlega heimsækja fyrirtækið um 75 þúsund ferðamenn sem er meiri fjöldi en nokkurt annað fyrirtæki getur státað af.
Cognac Otard var stofnað árið 1795 af Otard barón og er fyrirtækið því rösklega 200 ára gamalt. Otard þessi var af skoskum og frönskum aðalsættum en lengra aftur rakti hann ættir sínar til Noregs og átti forfaðir hans, Ottard jarl, að hafa flúið land vegna yfirgangs Haralds konungs hins hárfagra.
Afkomandi Ottards, Otard barón, var líkt og margir aðrir aðalsmenn handtekinn meðan á frönsku byltingunni stóð og dæmdur til dauða. Það varð honum hins vegar til lífs að íbúar bæjarins Cognac komu og frelsuðu hann úr fangelsi degi fyrir aftökuna. Hann flúði að því búnu til Englands en sneri aftur er ástandið fór að skána í Frakklandi. Fjölskylda barónsins átti nokkrar birgðir af brenndu víni er höfðu verið í geymslu frá 1760 og ákvað hann því að stofna vínfyrirtæki með vinum sínum úr Dupuyfjölskyldunni og hét það OtardDupuy.
Reksturinn gekk það vel að árið 1796 gátu þeir félagar fest kaup á Château de Cognac en sá kastali á sér merka sögu. François fyrsti Frakklandskonungur fæddist í kastalanum árið 1494 og hann var í eigu frönsku konungsfjölskyldunnar allt til ársins 1789. Otard var hins vegar ekki einungis með sögu hússins í huga er hann keypti það heldur einnig þá staðreynd að í kjöllurum kastalans eru kjöraðstæður fyrir geymslu á koníaki. Árið 1804 var hann kjörinn borgarstjóri Cognac og íbúðarhús hans er nú ráðhús borgarinnar.
Síðasti afkomandi Otard, René Otard, lést árið 1934. Á tuttugustu öldinni skipti fyrirtækið nokkrum sinnum um eigendur en var loks í byrjun tíunda áratugarins keypt af BacardiMartinistórfyrirtækinu. Philippe Jouhaud, útflutningsstjóri Otard, segir fyrirtækið leggja áherslu á efri gæðaflokka koníaks og séu 55% framleiðslunnar VSOP en 25% XO.