Risotto Milanese

Risotto Milanese er ein af sígildu risotto-uppskriftun og varla mikið leyndarmál að hún er frá Milanó. Ólíkt flestum öðrum risotto-réttum er Milanese hins vegar ekki hugsaður sem primi eða forréttur. Algengast er að bera fram Risotto Milanese með réttum á borð við Osso Buco.

  • 3 dl Arborio-grjón eða önnur risotto-grjón
  • 1 lítri kjúklingasoð
  • 1 tsk saffran
  • 150 grömm beikon (eða ítalskt pancetta)
  • 2 skalottulaukar, saxaðir
  • 1 dl hvítvín
  • 2 dl rifinn parmesanostur
  • 2 msk smjör
  • olía
  • Salt og pipar

Hitið kjúklingasoðið í potti. Setjið saffranþræðina í bolla af heitu vatni.

Fyrsta skrefið er að útbúa einfalt soffrito eða grunn. Það gerum við með því að steikja beikonið á pönnu í um tvær mínútur, bæta þá við skalottulauknum og steikja í 3-4 mínútur í viðbót. Þá er grjónunum bætt út á pönnuna og þeim velt upp úr olíunni í nokkrar mínútur. Þegar hrísgrjónin fara að „smella“ er kominn tími á að hella hvítvíninu út á. Leyfið því að malla í um mínútu og hrærið með trésleif á meðan. Byrjið síðan að bæta kjúklingasoðinu út á pönnuna. Eina ausu í einu. Látið grjónin malla á miðlungs hita, ef of mikill hiti er á pönnunni gufar vökvinn bara strax upp. Hrærið í með sleif á 2-3 mínútna fresti. Þegar helmingurinn af soðinu er kominn út á er saffran-blöndunni hrært saman við. Tékkið reglulega á grjónunum. Það tekur um 18-20 mínútur þangað til að þau fara að verða tilbúin, eiga enn að vera örlítið stökk í miðjunni. Slövkkvið á hitanum, bætið rifna parmesanostinum saman við og smjörinu. Setjið lok á pönnuna og leyfið að standa í 3-5 mínútur.

Berið fram til dæmis með Osso Buco eða góðri steik á beini. T.d. rósmarínelduðum svínakótilettum.

Deila.