Kjúklingalæri með fetaosti og ólívum

Þetta er grískættaður réttur í anda Miðjarðarhafsins þar sem tómatar, ólívur og óregano kallast á við fetaost og steinselju.

 • 800 g úrbeinuð kjúklingalæri
 • 1 laukur, saxaður
 • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
 • 1 stór dós af tómötum
 • 2 dl svartar, steinhreinsaðar ólífur, helst grískar Kalamata-ólívur
 • 3 dl fetaostur í teningum
 • 1 dl þurrt hvítvín
 • 1 lúka söxuð steinselja
 • ½ lúka saxað ferskt oregano eða 2 tsk þurrkað
 • 500 g mjög smágert pasta, t.d. Orzo
 • Salt og pipar

Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklingabitana, saltið og piprið. Takið af pönnunni þegar kjúklingurinn er fullsteiktur. Setjið nú saxaða laukinn á pönnuna og steikið í olíunni og kjúklingasafanum í um þrjár mínútur. Bætið þá hvítlauknum saman við og um mínútu sienna tómötunum, ólívunum, hvítvíninu og oregano-kryddinu. Setjið kjúklinginn aftur á pönnuna ásamt safa sem kann að hafa lekið úr honum, setjið lok á pönnuna og látið malla á vægum hita í 25 mínútur.

Hitið pastað á meðan. Uppskriftin gerir ráð fyrir Orzo sem eru smávaxin grísk pastakorn, áþekk stórum grjónum. Ef þið finnið ekki Orzo er hægt að nota hrísgrjón eða bygg þess í stað eða þá eitthvað annað mjög fíngert pasta en Orzo.

Þegar Orzo-grjónin eru tilbúin eru þau sett í botninn á fati. Kjúklingurinn af pönnunni þar ofan á og loks fetaosturinn og söxuð steinseljan efst.

Gott ferskt hvítvín með, t.d. Banfi San Angelo Pinot Grigio eða A Mano Fiano Greco

Deila.