Fennel-kjúklingur

Fennel er bragðmikil jurt sem á uppruna sinn að rekja til MIðjarðarhafsins. Fennelkrydd er unnið úr „fennelfræunum“ sem munu víst í raun vera ávextir jurtarinnar, laufin eru góð kryddjurt og belinn er hægt að nýta á margvíslegan hátt líkt og við sjáum í þessari uppskrift.

Fennel hefur gott bragð, sem minnir svolítið á anís, og er jurtin og krydd af henni vinsæl í ítalskri matargerð.

  • 4 kjúklingabringur, skornar í 3 bita hver
  • 3 fennelbelgir, hreinsið utan af og skerið í grófa bita
  • 3 stönglar ferskt rósmarín, saxað
  • 1 steinseljubúnt
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 1,5 dl kjúklingasoð
  • Salt og pipar

Hitið olíu á pönnu eða þykkum potti og steikið fennelbitana.  Bætið við rósmarín og klípu af salti. Steikið bitana í rúmar tíu mínútur, þeir mýkjast og taka smám saman á sig brúnan lit.

Hellið kjúklingasoðinu á pönnuna, setjið lokið á og látið malla í þrjár til fjórar mínútur. Takið af pönnunni og geymið.

Bætið við olíu á pönnuna og steikið kjúklingabitana og um matskeið af fersku rósmarín. Saltið og piprið. Þegar kjúklingurinn er fulleldaður er hvítlauknum bætt út í og steiktur með í um hálfa mínútu. Bætið loks fennikkunni og vökvanum saman við. Leyfið að malla í nokkrar mínútur. Slökvið á hitanum og bætið steinseljunni saman við.

Berið fram með hrísgrjónum soðnum í kjúklingasoði (ein teskeið af krafti út í vatnið og klípa af þurrkuðu rósmarín).

Hvítvín hentar vel með þessum kjúklingi, t.d. Cono Sur Viognier eða jafnvel rósavín á borð við Cune Rosado.

Deila.