Carmenere er framtíðin

Gabriel Salas  getur ekki kvartað yfir að leiðast í vinnunni. Hann er mikill vínáhugamaður um vín og var í öðrum útskriftarárgangi úr nýjum vínþjónaskóla í Chile. Frá árinu 2003 hefur hann starfað fyrir stærsta vínfyrirtæki Chile, Concha y Toro sem raunar er einnig það stærsta í heimi.

Salas segir það sérstakt við Chile að vínþjónar eða sommeliers starfi yfirleitt ekki á veitingahúsum líkt og í Evrópu og Bandaríkjunum heldur í vínbúðum og hjá vínfyrirtækjum. Þegar hann hóf störf há Concha y Toro sinnti hann innanlandsmarkaðnum í fyrstu en frá árinu 2006 hefur hann unnið á útflutningsmörkuðum fyrirtækisins og starfar við að kynna vín þess í Evrópu, Kanada, Mið-Austurlöndum og Afríku.

Hann kynnti Íslendingum vín Concha y Toro um síðustu helgi, m.a. á fjölmennri vínsmökkun á Hótel Borg á nokkrum veitingahúsum.

Aðspurður um hvernig hann mæti stöðu chilenskra vína í heiminum í dag sagðist hann hafa séð þá þróun undanfarið ár, eftir að fór að kreppa að í efnahagsmálum, að fólk hefði mjög góða ímynd af vínum landsins. Þau væru talin „örugg kaup“ og „stöðug í gæðum“.

Fyrst og fremst væru neytendur að sækja í hinar hefðbundnu þrúgur á borð við Chardonnay, Sauvignon Blanc, Merlot og Cabernet Sauvignon, en það væri athyglisvert að Carmenere væri að sækja verulega í sig veðrið. Þessi gamla franska þrúga var talin nær útdauð en fyrir nokkrum árum kom í ljós að töluvert að því sem menn töldu vera Merlot-vínvið í Chile væri í raun Carmenere.

„Frá og með 2005 árganginum þá höfum við í Chile náð góðum tökum á framleiðslu vína úr Carmenere og vínin fara stöðugt batnandi. Þetta er þrúga sem þarf að bíða eftir, hún þroskast seint og menn verða að vera þolinmóðir og ekki hefja tínslu berjanna of snemma. Nú fyrir skömmu gerðist það svo í fyrsta skipti að vín úr Carmenere lenti á lista Wine Spectator yfir 100 bestu vín ársins,“ segir Salas.

Þegar hann er spurður hvort að hægt sé að bera saman stöðu Carmenere við Malbec frá Argentínu, sem hefur verið töluvert í tísku undanfarið ár, segir hann þá samlíkingu eiga við að vissu marki. Hins vegar sé Malbec alþjóðleg þrúga sem finna megi víða Carmenere finni maður hins vegar einungis í Chile.

„Þegar við horfum fram í tímann þá felst framtíð víngerðar í Chile í Carmenere. Hún hefur kryddið úr Syrah, mýkt Merlot og strúktúrinn frá Cabernet, sem sagt sitt lítið af hvoru.“

Framtíð Chile felst sömuleiðis í þeim mörgu spennandi vínræktarsvæðum sem byrjað hefur verið að rækta upp á síðustu árum. Mikið hafi verið fjárfest í vínekrum á síðasta áratug síðustu aldar og þær séu nú margar að ná kjöraldri. Chile eigi því að geta tekið næsta skref gæðalega séð. Sérstaklega spennandi telur Silva vera svæði á borð við Limari fyrir Chardonnay og Syrah og strandsvæði Colchagua suður af Leyda fyrir þrúgur á borð við Sauvignon Blanc.

Eitt vinsælasta vín Concha y Toro er Casillero del Diablo sem framleitt er í gífurlega miklu magni. Aðspurður um hvert leyndamálið sé á bak við það að ná að halda þessum gæðum þrátt fyrir að auka jafnt og þétt við framleiðslumagnið, nokkuð sem t.d. Ástralir hafa lent í erfiðleikum með, segir hann það felast í því að fyrirtækið eigi sínar eigin ekrur og fylgi gífurlega strangri gæðastefnu við ræktun þeirra. Concha y Toro á samtals um 7600 hektara af vínekrum og nær því að tryggja ræktun á þrúgun sem standast gæðastaðla fyrirtækisins.

„Víngerðarmaður okkar, sem er einn sá færasti í Chile, gerir sér líka fyllilega grein fyrir því hversu mikið er í húfi. Concha y Toro er ekki bara stærsti framleiðandi Chile heldur sendiherra landsins í vínmálum um allan heim. Við verðum því að standa okkur.“

Deila.