Montes Chardonnay 2008

Þetta hvítvín kemur frá svæðinu Curico í Chile sem teygir sig þvert yfir landið frá Kyrrahafinu austur að Andesfjöllum. Loftslagið er Miðjarðarhafslegt og því ekki skrýtið að þetta sé með helstu vínræktarsvæðum Chile.

Montes Chardonnay 2008 er eitt af hinum yndislegu vínum Aurelio Montes. Í nefinu ávaxtasalat þar sem ægir saman banönum, kiwi og perum. Saman við þetta fléttast nýslegið gras og mild og sæt vanilla úr amerísku eikinni sem víngerjunin á sér stað í. Þægilegur sætur og milt beiskur ávöxtur í munni, sýran létt og áferðin mjúk.

Þetta er vín fyrir ferska rétti og kryddaða rétti. Reynið til dæmis með austurlenskum mat eða fiskréttum þar sem sítróna eða lime er áberandi.

1.859 krónur. Mjög góð kaup miðað við verð og þetta samspil verðs og gæða tryggir víninu fjórðu stjörnuna.

 

Deila.