Grilluð appelsínuönd

Það er hægt að gera ýmsilegt við andarbringur. Þær eru tilvaldar á grillið, það eina sem þarf að varast er að fitan sem lekur úr húðinni kveiki ekki í öllu saman. Hér er grillútgáfa af hinni klassísku frönsku appelsínuönd.

  • 2 andarbringur
  • 2 appelsínur
  • 1 sítróna
  • 1 dl appelsínumarmelaði (ekki of sætt, t.d. St. Dalfour)
  • lúka af estragon, saxað
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Rífið væna matskeið af appelsínuberki og aðra af sítrónuberki með fínu hliðinni á rifjárni. Pressið safann úr bæði appelsínunni og sítrónunni og setjið í skál ásamt berkinum. Bætið við marmelaði og fínsöxuðu estragon, skvettu af olíu , salti og pipar.

Skerið raufar í skinnhliðina á bringunum og látið þær liggja í  um 2/3 af leginum í að minnsta kosti klukkustund.

Skerið appelsínu niður í þunnar sneiðar og leggið í afganginn af leginum.

Grillið bringurnar á háum hita, 3-4 mínútur á hvorri hlið undir loki. Lengdin ræðst af stærð bringnanna og hita grillsins.  Bringur eru bestar medium-rare. Leyfið kjötinu að jafna sig í nokkrar mínútur áður en þið skerið þær í sneiðar.

Grillið appelsínusneiðarnar í 1-2 mínútur á hvorri hlið.

Skerið öndina í sneiðar, saltið örlítið ef þarf. Berið fram ásamt appelsínunum og t.d. steiktu spínati.

Gott Nýjaheimsrauðvín með s.s. St. Clair Pioneer Block Pinot Noir eða Montes Cabernet Sauvignon.

Deila.