Cantenac-Brown í Viðey

Vínhúsið Cantenac-Brown var í sviðsljósinu í vikunni en um áratugar hefð er komin fyrir því að eitthvert af stórstirnum Bordeaux heimsækji Ísland fyrri hluta júní-mánaðar. Að þessu sinni var það José Sanfins, forstjóri Chateau Cantenac-Brown í Margaux.

Heimsóknirnar frá Bordeaux, sem skipulagðar eru í samvinnu Compagnie Médocaine, Globus og Hótel Holts, hafa yfirleitt verið skipulagðar með þeim hætti að haldin hefur verið „masterclass“-smökkun í Þingholti og gestum síðan gefist kostur á matseðli með tilheyrandi vínum í Listasafni Hótel Holts.

Að þessu sinni var hins vegar brugðið út frá venjunni og var smökkun og kvöldverði rennt saman í Viðeyjarstofu, en Hótel Holt sér um veitingarekstur þar í sumar. Þá var sérstakur mat- og vínseðill í boði á Holtinu um helgina.

Kvöldið í Viðeyjarstofu var einstaklega vel heppnað í mat og drykk og leiddi José Sanfins gesti í gegnum allnokkra árganga af Cantenac Brown. Byrjað var á að smakka 2004, 2005 og 2006. Allt glæsilegir árgangar. 2004 dæmigerður Médoc, 2005 auðvitað einn besti árgangur síðustu áratuga í Bordeaux og svo 2006 sem var mjög sérstakur hjá Cantenac. Þá höfðu nýjir eigendur tekið við húsinu og vildu sýna hvað hægt væri að gera. Einungis 30% af víninu af ekrum Chateau Cantenac fór í aðalvínið en 70% í „second“-vínið Brio. Þetta þýðir auðvitað að bæði vínin eru óvenjulega mögnuð þetta árið.

Þá kom næst aldamótaárgangurinn 2000, farinn að ná góðum þroska og alveg hreint magnaður, en meira á óvart kom 2003. Þetta var hitabylgjusumarið mikla og vínið kröftugt og allt að því kalifornískt. Hrikalega flott. 1998 olli ekki vonbrigðum og 1989 sýndi gestum hvers vegna Bordeaux hefur þá stöðu sem raun ber vitni í vínheiminum.

Með þessu öllu setti Friðgeir Ingi Eiríksson fram glæsilegan matseðil þar sem réttirnir féllu vel að vínunum.

Deila.