Two Oceans Pinot Grigio 2009

Þrúgan Pinot Grigio hefur á síðustu árum komist í tísku í heiminum í kjölfar mikilla vinsælda norður-ítalskra Pinot Grigio-vína, ekki síst í Bandaríkjunum. Þrúgan er þó langt í frá ný og margir hafa eflaust kynnst henni undir nafninu Pinot Gris en það er heiti hennar í Frakklandi og er hún mikið ræktuð í Alsace. Þá er hana einnig að finna í Þýskalandi þar sem hún er kölluð Grauer Spatburgunder.

En þessar miklu vinsældir Pinot Grigio-vína hafa orðið til þess að víða eru menn farnir að rækta þessa þrúgu. Til dæmis í Suður-Afríku en nú nýlega kom fyrsti árgangur vínsins Two Oceans Pinot Grigio á markaðinn bæði á heimsvísu og hér heima.

Two Oceans eiga það sameiginlegt með Pinot Grigio að njóta sívaxandi vinsælda ekki síst eftir að þekktustu víngagnrýnendur heims á borð við Robert Parker hafa nefnt þessi vín sem dæmi um vín sem gefi mjög mikið þótt verðið sé lágt.

Hið nýja Pinot Grigio er þar engin undantekning. Mild blómaangan og sneisafullt af þægilegum, sætum hitabeltisávexti: mangó, lyché, ferskjum og jafnvel örlitlum kókos. Ferskt með nokkurri sætu. Vel kælt er þetta hinn besti sumarsmellur.

1.599 krónur. Frábær kaup og fær hálfa stjörnu í viðbót fyrir verðið.

 

Deila.