Vidal-Fleury Cotes-du-Rhone 2007

Árgangurinn 2007 var einn sá besti sem framleiðendur í Rhone-dalnum í Frakklandi hafa nokkru sinni upplifað. Lýsingarorðin sem notuð eru um hann eru frá því að vera hástemmd yfir í yfirdrifin. Það breytir ekki því að þetta er árgangur sem á sér varla sinn líka og jafnvel einföldustu vín svæðisins voru afbragð.

Vínhúsið Vidal-Fleury var í eigu Vidal-fjölskyldunnar allt fram til ársins 1985 en þá keypti Etienne Guigal, einn þekktasti vínmaður Frakklands, meirihluta í fyrirtækinu. Vidal-Fleury hefur hins vegar verið rekið áfram sem algjörlega sjálfstæð eining.

Vidal-Fleury Cotes-du-Rhone 2007 er þungt og mikið af Cotes-du-Rhone-víni að vera. Þetta er ekki bjart og ávaxtaríkt vín, líkt og þau eru gjarnan heldur massaður kryddbolti, dimmur og djúpur. Þroskuð og þurr kirsuber, svartar ólívur og kryddjurti. Nokkuð tannískt en engu að síður mjög aðgengilegt. Það er bara að njóta.

2.390 krónur. Mjög góð kaup og á frábæru verð miðað við gæði.

 

 

Deila.