Hamborgarhryggur með kóksósu

Er virkilega hægt að nota kók í sósu með góðum árangri? Uppskrift sem birtist í Jólablaði Morgunblaðsins árið 2004 vakti upp þá spurningu. Uppskriftin hefur verið þróuð áfram og tekið nokkrum breytingum, meðal annars hefur smá rauðvín bæst við samhliða kókinu í sósunni, sem gefur henni meiri þyngd og dýpt og mildar sætuna.

Fyrir 6: 2,5 kg hamborgarhryggur

Setjið hrygginn  í pott ásamt 2 lárviðarlaufum og nokkrum negulnöglum og piparkornum. Látið suðuna koma upp og sjóðið á vægum hita í 45 mínútur.

Leyfið hryggnum að kólna aðeins og skerið þá af beininu.

Útbúið sykurhjúpinn á meðan.

Sykurhjúpur

  • 2,5 dl sykur
  • 1/2 dl vínedik eða sideredik
  • 1 dl tómatsósa
  • 1 dl rjómi
  • 1/2  dl Dijon sinnep

Bræðið sykur og edik saman í þykkum potti. Þegur sykurbráðin fer að taka á sig brúnan lit er sinnepi, tómatsósu og rjóma bætt saman við. Hrærið vel saman og látið malla þar til blandan verður þykk.

Haldið 1 dl af hjúpnum til haga en smyrjið restinni á hrygginn. Setjið hann á fat og inn í 175 gráðu heitan ofn í hálftíma.

Kóksósa

  • 1 dl af sykurhjúpnum
  • 2 dl af soðinu
  • 2 dl Coca Cola
  • 2 dl rauðvín
  • 2 dl rjómi

Setjið soðið, kókið, rauðvín og sykurhjúpinn í pott. Látið suðu koma upp, lækkið hitann og látið malla á vægum hita þar til búið er að sjóða niður um helming. Bætið rjóma saman við og látið malla áfram í 10-15 mínútur þar til sósan er orðin þykk og bragðmikil.

Ef þið vijið mikla sósu er bara að tvöfalda skammtinn.

Berið fram með hefðbundnu meðlæti til dæmis heimatilbúnu rauðkáli og kartöflum.

Deila.