Peter Lehman Tempranillo 2006

Tempranillo frá Ástralíu er sjaldgæf sjón. Þessi meginþrúga spænskra rauðvína og uppistaða nær allra Rioja-vína hefur ekki verið mikið notuð utan Spánar.

Andrew Wigan yfirvíngerðarmaður Lehman heillaðist af Tempranillo í heimsókn til Spánar fyrir um áratug og taldi líklegt að þrúgan myndi dafna vel í hinu heita loftslagi Barossa-dalsins í Suður-Ástralíu. Fleiri áströlsk vínhús hafa einnig verið að gera tilraunir með Tempranillo með ágætum árangri.

Lehman Tempranillo 2006 er athyglisvert vín, það borgar sig raunar að lofta það aðeins og gefa því hálftíma í karöflu. Þá birtist þykkur og dökkur ávöxtur, þroskaðar plómur og jafnvel ólívur. Kröftugt þétt og rosalega óspænskt. Það er enginn Rioja-fílingur í þessu, þetta er hreinræktaður Ástrali en engu að síður með Tempranillo-sérkennum, ekki síst mýktina sem einkennir þau vín.

2.599 krónur.

 

Deila.