Það er rík hefð fyrir því að elda önd bæði í Frakklandi og Kína og hér mætast brögð úr þessum tveimur megineldhúsum í sósunni með öndinni.
Hráefni:
- 3-4 andarbringur (gerið ráð fyrir 200-250 g á mann)
- 100 g rúsínur
- jasmínte í sem hæstum gæðaflokki
- 3 dl andarsoð (Oskar andarkraftur + vatn)
- 3 dl appelsínusafi
- 2 dl De Kuyper Cherry líkjör
- 1 dl koníak/brandí
- 1 dl sykur
- 1/2 lime, safinn pressaður
- 2 msk smjör
- 1 msk sojasósa
Rúsínurnar
Hitið 3 dl af Jasmínte. Setjið rúsínurnar í skál og hellið teinu yfir. Leyfið nokkrum telaufum að fylgja með. Lokið með álpappír og geymið í ísskáp yfir nótt.
Sósan:
- Hitið smjörið og sykurinn saman á pönnu þar til að sykurinn bráðnar og byrjar að brúnast.
- Bætið appelsínusafa og sojasósu út á og sjóðið niður um helming.
- Í öðrum potti er líkjörinn og koníakið/brandíið soðið niður um 2/3 eða þar til um 1 dl er eftir.
- Andakrafturinn er hitaður skv. leiðbeiningum.
- Blandið líkjörnum og appelsínusoðinu saman og loks heitum andarkraftinum. Látið suðu koma upp og leyfið að malla í um 10 mínútur. Bragðið á sósunni og staðreynið að hún sé orðin bragðmikil og fín.
- Lækkið hitann niður fyrir suðupunkt. Bætið einni vænni matskeið af jasmín-telaufum út í og hrærið saman í um eina mínútu.
- Bætið pressaða lime-safanum saman við. Smakkið og saltið og piprið eftir þörf. Síið sósuna og geymið.
- Hitið andarbringurnar samkvæmt þessum leiðbeiningum hér.
- Skerið bringurnar í sneiðar og raðið á diska.
- Hitið sósuna og hellið á diskana.
- Hitið rúsínurnar í teinu. Síið vökvann frá og deilið rúsínunum í telaufunum á diskana.
Gott meðlæti eru kartöflur Pommes Duchesse.
Með þessu gott Bordeaux-vín t.d. Tourelles de Longueville eða Ítali á borð við Isole e Olena.