Tímavél frá Peugeot?

Vínlykillinn eða Clef du Vin er lítið tæki frá Peugeot sem dýft er ofan í vínglas. Tækið, sem er í laginu eins og lítill vasaostahnífur, ef eitthvað slíkt er til, er með koparplötu á „hnífsblaðinu sem breytir eðli vínsins þegar hún kemst í snertingu við það. Samkvæmt bæklingi er fylgir með á hver sekúnda sem vínlyklinum er haldið ofaní víninu að jafngilda einu ári í öldrun. Þannig má meta hvernig vínið mun þróast. Lykillin var þróaður af einum þekktasta sommelier eða vínþjóni Frakklands, Franck Thomas, og vínfræðingnum Laurent Zanon, en málmurinn í lyklinum kemur af stað ákveðnum öldrunarferli í gegnum oxun.

En virkar þetta? Við reyndum vínlykilinn á nokkrum vínum, bæði rauðum og hvítum. Stundum voru áhrifin greinileg, í sumum tilvikum minni. Breytingin var yfirleitt ekki augljós fyrst, vínið þarf að standa aðeins áður en á því er dreypt á ný. Það urðu hins vegar greinilegar breytingar á flestum vínunum. Tannín í ungum rauðvínum milduðust og það sama má segja um sýruna í hvítvínum. Vínin urðu kannski ekki beinlínis „gömul“ en þau mýktust og urðu í sumum tilvikum aðgengilegri. En jafnvel hvítvín, sem eflaust verður ekki árennilegt eftir 30 ár, var langt í frá því að vera gamalt og þreytt þótt lykillinn væri skilinn eftir í 30 sekúndur. Það dofnaði vissulega, en það var ennþá töluvert líf í því.

Þetta er hins vegar skemmtilegur samkvæmisleikur og vissulega forvitnilegt að bera saman vínið sem hellt er beint í glas við vín sem hefur verið lyklað og ræða hvort að munur finnist og þá hver.

Vínlykillinn fæst í Kokku.

Deila.