Gamaldags ananasfrómas

Hver á ekki minningar um ananasfrómas úr æsku? Þetta hefur um áratugaskeið verið einn algengasti eftirrétturinn á íslenskum veisluborðum og stendur enn vel fyrir sínu, þó ekki væri nema minninganna vegna.

  • 5 dl rjómi
  • 1 dós ananasskífur
  • 4 egg
  • 5 matarlímsblöð
  • 75 g sykur
  • 1/2 sítróna

Takið frá nokkrar ananasskífur til skreytingar. Saxið hinar gróft niður og geymið safann úr dósinni.

Þeytið saman egg og sykur með handþeytara  í nokkrar mínútur þannig að úr verði ljós froða.

Pressið sítrónuna og leysið matarlímsblöðin upp í sítrónusafanum og um 1 dl af ananassafanum. Setjið skálina með matarlíminu og safanum í vatnsbað og bræðið matarlímið. Bætið varlega saman við eggjablönduna og hrærið vel saman. Passið vel upp á að blandan fari ekki í kekki. Leyfið að kólna.

Þeytið rjómann og bætið saman við. Saxið nokkra ananasbita og bætið saman við.

Setjið í fallega skál og geymið í ísskáp á meðan matarlímið er að stirðna.

Skreytið með ananasskífum, rjóma og berjum.

Deila.