Gráðostaborgari með aioli

Ostborgarar eru alltaf vinsælar en það er líka góð hugmynd að blanda gráðaosti og beikoni saman við kjötið og útbúa stóran, safaríkann hamborgara. Best er að kaupa góðan kjötbita og hakka sjálfur þótt auðvitað sé hægt að nota nautahakk.

  • 5-600 g nautakjöt (ekki of magurt) – eða tilbúið nautahakk
  • 100 g rifinn gráðaostur
  • 100 g beikon, skorið í litla bita
  • 1 msk Worschestersósa
  • Salt og pipar

Hakkið kjötið í hakkavél eða með saxi. Blandið saman kjöti, gráðaosti, beikoni og Worchestersósu í stórri skál. Passið að hamast ekki of mikið á kjötinu þannig að þetta verði allt að mauki.

Mótið fjóra stóra hamborgara úr kjötblöndunni.

Grillið eða steikið á mjög háum hita. Setjið á hamborgarabrauð ásamt t.d. blaði af jöklasalati, sneið af bufftómati, sneið af rauðlauk og aioli-sósu en hana gerum við með því að gera heimtailbúið majonnes samkvæmt uppskriftinni hér og bæta tveimur pressuðum hvítlauksrifjum við í lokin.

Með þessu klettasalat og tómatar og jafnvel heimatilbúnar franskar kartöflur en dæmi um hvernig hægt er að gera slíkar má sjá hér.

Rauðvín, t.d. Cabernet Sauvignon frá Nýja heiminum á borð við Montes Alpha, passar vel með.

Deila.