Indversk kássa

Hakkað nautakjöt er ekki algengasta hráefnið í indverskri matargerð. Í þessum rétti sem heitir Massai Kheema og er það sem við á íslensku köllum kássa er hakkið hins vegar notað í bland við fullt af bragðmiklum, indverskum kryddum, sem lengja hráefnislistann töluvert.

Hráefni:

 • 500 g nautahakk
 • 1 bufflaukur, saxaður
 • 5 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 3 msk rifinn engiferrót
 • 1 dós tómatar
 • 1 dós Grísk jógúrt
 • 1 lúxa ferskt kóríander, saxað
 • 12 möndlur, setjið í sjóðandi vatn í 1 mínútu. Maukið ásamt 2 msk vatni í matvinnsluvél.
 • 3 dl vatn

Krydd:

 • 2 tsk cummin
 • 1 tsk turmerik
 • 1 tsk mulinn kóríander
 • 1 tsk kardimomma
 • 2 tsk paprika
 • 1 tsk cayennepipar
 • 5 negulnaglar
 • 5 sm kanilstöng
 • salt

Aðferð:

Hitið olíu á stórri pönnu eða pottjárnspotti. Setjið negulnaglana og kanilstöngina út í  og hitið í olíunni í eina mínútu. Bætið við lauk, hvítlauk og engifer ásamt cummin, turmerik, cayennepipar, kardimommu, papriku og muldum kóríander. Brúnið í um fimm mínútur. Bætið þá kjötinu út í og steikið þar til ekkert rautt sést lengur á kjötinu. Saltið.

Bætið nú tómötunum út í og blandið vel saman. Þá er jógúrtinu bætt út í ásamt vatninu og möndlumaukinu. Leyfið suðunni að koma upp og hrærið reglulega í á meðan. Lækkið hitann, setjið lok á pönnuna og látið malla á vægum hita í 45 mínútur.

Bætið Garam Masala og söxuðum kóríander út í og blandið vel saman við rétt áður en rétturinn er borinn fram.

Gott er að hafa með basmati-grjón, naan-brauð og raita.

Athugið! Þetta er einn af þessum réttum sem verður bara betri eftir því sem hann fær að standa lengur og er langbestur daginn eftir.

Deila.