Proprieta Sperino Uvaggio 2007

Paolo de Marchi hefur um langt skeið verið með virtustu víngerðarmönnum Ítalíu vegna vínbúgarðsins Isole e Olena í Chianti í Toskana. Hann kom hingað haustið 2007 og gafst þá meðal annars kostur á að smakka fjölmarga árganga af Cepparello, þekktasta víni hans. Rætur fjölskyldunnar eru hins vegar í Piedmont á Norður-Ítalíu og fyrir nokkrum árum lét Paolo drauminn um að stunda vínrækt á slóðum forfeðranna rætast.

Hann tók ásamt Luca syni sínum við eigninni Proprieta Sperino í Lessona. Sperino-fjölskyldan er náskyld de Marchi-fjölskyldunni og tók hún við víngerðinni af Sperino í upphafi síðustu aldar. Þarna á búgarðinum hafði Paolo dvalið mörg sumur sem ungur drengur og heillast af öllu því sem tengdist vínræktinni.Víngerðin lagðist hins vegar nánast af frá og með sjöunda áratugnum, eða þar til Paolo endurlífgaði hana.

Uvaggio er vín frá víngerðarsvæðinu Coste della Sesia og er blanda úr Piedmont-þrúgum, 70% Nebbiolo, 15% Vespolina og 15% Croatina. Þetta er kröftugt og mikið vín sem lætur bíða eftir sér, það sýnir lítið í fyrstu en vex síðan og vex eftir því sem það opnar sig. Mæli eindregið með umhellingu. Mjög dökkt og djúpt, sveskjur og plómur í nefi, míneralískt og kryddað. Í munni kröftugt, sýrumikið og tannískt en mildast með góðum mat. Þetta er vín fyrir stórsteikur og þroskaða harða osta á borð við Parmigiano eða Primadonna.

5.480 krónur

 

Deila.