Austurrísk eftirlíking af Frantzén

Það sækja flestir matreiðslumenn hugmyndir og innblástur til annarra og nýjar hugmyndir fara yfirleitt eins og eldur um sinu. Það brá hins vegar mörgum þegar í ljós kom að einn af þekktari veitingastöðum Austurríkis var nákvæm eftirlíking af sænsku veitingahúsi.

Flett var ofan af málinu í kjölfar þess að austurrískur blaðamaður snæddi á veitingahúsinu Frantzén í Stokkhólmi, sem þykir vera með bestu veitingahúsum á Norðurlöndum. Hann frétti af því að austurrískur kokkur starfaði stundum í eldhúsinu á Frantzén. Kokkurinn, Walter Ezelböck, er þekktur kokkur í Austturíki og rekur þar staðinn Taubenkobel. Blaðamaðurinn ákvað að endurnýja kynninn við eldamennsku Ezelböcks í kjölfarið en komst þá að því að allt á Taubenkobel var nákvæm eftirlíking af Frantzén. Ekki bara réttirnir heldur lýsingarnar á réttunum og sérkenni Frantzén á borð við innsiglað bréf frá matreiðslumanninum til gesta var allt að finna á Taubenkobel.

Blaðamaðurinn skrifaði í kjölfarið grein í blaðið Der Standard sem bar yfirskriftina „Stokkhólmur í fjöllunum“.

„Yfirleitt er það gaman þegar einhverjir sækja innblástur til manns. Þetta er hins vegar bara sorglegt,“ segir veitingamaðurinn Björn Frantzén í samtali við sænska fjölmiðla.

Ezelböckel hefur hins vegar varið sig í austurrískum fjölmiðlum og segir það ávallt hafa glatt sig þegar hann hafi séð hugmyndir frá sér skjóta upp kollinum á veitingastöðum í Frakklandi eða Kaliforníu. „Það er aldrei hægt að taka hugmyndir upp hráar. Þær verður ávallt að laga að aðstæðum á hverjum stað,“ segir Ezelböckel. Aðspurður um að hafa ekki einungis „stolið“ réttunum frá Frantzén heldur einnig hvernir þeir eru kynntir (enginn matseðill, bréf frá kokkinum þar sem konseptið er kynnt) segir hann að þessi nálgun hafi höfðað til hans og því hafi hann ákveðið að gera hið sama.

Deila.