Lambabollur með risotto og kóríanderpestó

Það er svolítið grískur fílingur í þessum kjötbollum með myntunni og kanilnum. Risottóið hins vegar ítalskt og pestóið með kóríander og engifer kalifornískt.

Kjötbollur

 • 500 g lambahakk
 • 1 rauðlaukur, fínsaxaður
 • 2 lúkur fersk mynta, fínsöxuð
 • 1 dl heimatilbúin brauðmylsna
 • 1 egg
 • 1/2  tsk kanil
 • salt og pipar

Blandið öllum hráefnunum vel saman og mótið litlar kjötbollur. Hitið olíu á pönnu og steikið kjötbollurnar í 10-12 mínútur eða þar til þær eru fulleldaðar.

Risotto með rauðvíni

 • 2,5 dl risottogrjón (Arborio eða Carnarolo)
 • 1 laukur, saxaður
 • 3-4 hvítlauksgeirar, saxaðir
 • 1 dl rauðvín
 • 7 dl kjúklingasoð
 • 2 dl nýrifinn Parmesan-ostur

Hitið ólívuolíu á pönnu ásamt 1 msk af smjöri. Mýkið laukinn og hvítlaukinn á miðlungshita. Bætið grjónunum út á og blandið vel saman við laukinn. Hitið grjónin á pönnunni í 2-3 mínútur og hellið þá rauðvíninu út á og leyfið að sjóða alveg niður. Þá er sjóðheitu kjúklingasoði bætt saman við grjónin, ausu og ausu í einu, þar til að þau eru fullsoðin, það tekur um 20 mínútur. Slökkvið á hitanum og bætið rifna ostinum saman við, bragðið til með salti og pipar.

Kóríanderpestó með engifer

 • 1 stórt búnt kóríander
 • 3 sm bútur af engiferrót
 • 1 msk sesamfræ, þurrristuð á pönnu þar til þau „poppa“
 • 1 chilibelgur
 • 1,5 dl ólívuolía
 • salt og pipar

Blandið öllu saman í matvinnsluvél.

Setjið kjötbollurnar á diska ásamt risotto og pestó. Berið fram með góð Cabernet Sauvignon frá t.d. Chile eða Argentínu.

 

 

Deila.