Önd með ólívum eða Canard au Olives er klassískur franskur réttur en ólívur virðast einhvern veginn falla fullkomlega að öndinni.
- 1 önd, tæp þrjú kíló að lágmarki
- 3 skalottulaukar, grófsaxaðir
- nokkrir timjanstönglar
- 3 dl hvítvín
- 250 g grænar, steinlausar ólífur
Þurrkið öndina vel, skerið rákir í hana alla og saltið vel og piprið að innan og utan.
Setjið skalottulauka, timjan, hvítvín og 2 dl af vatni í ofnskúffu.
Hitið ofninn í 250 gráður. Setjið öndina á rist með ofnskúffunni undir. Eldið í 20 mínútur. Lækkið þá hitann í 180 gráður og snúið öndinni við. Eldið í um klukkustund í viðbót eða þar til öndin er fullelduð. Skerið í hana við lærið og ef glær vökvi kemur út er hún fullelduð.
Látið öndina standa í um 15 mínútur.
Á meðan er soðið úr skúffunni síað og fitunni hellt frá að mestu leyti. Ef soðinu er hellt í könnu þá sest hún ofan á og auðvelt er að hella henni af. Setjið í pott og sjóðið aðeins niður og þykkið. Bætið ólívunum í pottinn og hitið.
Sneiðið öndina niður og berið fram með ólvíunum, sósunni, góðri kartöflumús, salati með vinaigrette og til dæmis strengjabaunum smjörsteiktum með hvítlauk.
Með þessu eru Bordeaux-vín fullkominn. Einhver besta ólívuönd sem ég hef fengið var í kvöldverði á Chateau Pichon-Longueville. Vínin þaðan eru ekki fáanleg en vín frá vínhúsinu sem er bókstaflega hinum megin við götuna, Pichon Baron, er fáanlegt og heitir Tourelles de Longueville.