Vilja ekki Ramsay

Breski stjörnukokkurinn Gordon Ramsay hefur ljáð mörgum veitingastöðum nafn sitt á síðustu árum auk þess að vera stórtækur í gerð sjónvarpsþátta á borð við Hells Kitchen. Veitingahús í Montreal sem tók upp samstarf við Ramsay hefur nú ákveðið að slíta öll tengsl og segir hann ekki hafa sinnt veitingahúsinu sem skyldi og hreinlega áttaði sig ekki á hvað húsið stæði fyrir.

Það var í ágúst í fyrra sem að veitingahúsið Laurier í Montreal tók upp nafnið Lauriel Gordon Ramsay. Haldið var mikið húllum hæ en þetta var fyrsta verkefni Ramsay í Kanada. Hátt í 200 milljónir voru settar í endurbætur á veitingahúsinu en þessi BBQ-kjúklingastaður hefur verið með rekstur í Montreal í 75 ár.

Danny Lavy, eigandi Laurier, segist hins vegar hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum. Ramsay hafi ekki sést á staðnum og símtölum til hans var ekki svarað. Þá hvatti hann til að vinsælustu réttir staðarins yrðu teknir af seðlinum og reyndu starfsfólki sagt upp störfum.

Fyrst stóð til að Ramsay yrði meðeigandi en Lavy segir að þegar í ljós kom að hann ætlaði ekki að leggja neitt fé í reksturinn hafi hann verið ráðinn sem ráðgjafi. „Við réðum hann sem ráðgjafa en starfsfólk hans lét eins og það ætti staðinn. Það var ekkert sem að þau gerðu sem að við hefðum ekki getað gert sjálf,“ segir Lavy í Montreal Gazzette.

Í yfirlýsingu frá Ramsay lýsir hann yfir vonbrigðum og segist hafa staðið fyllilega við skuldbindingar sínar og vel það. Hann furðar sig á ummælum Lavys og segir að lögfræðingar muni fylgjast grannt með öllu sem sagt er.

Veitingahúsið verður framvegis rekið undir nafninu Laurier 1936.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila.