Gerard Bertrand Chardonnay 2010

Vínin frá suður-franska vínhúsinu Gerard Bertrand sáust fyrst í fríhöfninni fyrr í vetur og nú um mánaðarmótin komu nokkur þeirra til sölu í vínbúðunum.

Bertrand var lengi einn þekktasti leikmaður Frakka í rugby og m.a. fyrirliði Stade Francais. Fjölskylda hans hafði hins vegar um árabil stundað vínrækt á heimaslóðunum í Corbieres í Suður-Frakklandi og þegar Bertrand lauk atvinnumannaferli sínum ákvað hann að einbeita sér alfarið að vínrækt og fjárfesti í nokkrum vínhúsum í Languedoc.

Vínhús hans telst í dag með þeim allra fremstu í Suður-Frakklandi og var m.a. valið European Winery of the Year af bandaríska tímaritinu Wine Enthusiast og „Best Overall Value Winery of France“ af Wine Spectator.

Þetta er hvítvín úr Chardonnay-þrúgunni, í stílnum mitt á milli evrópskra vína og þeirra úr Nýja heiminum. Létteikað með mildum sítrus, lime og greip ásamt rjóma í nefi. Ferskt og þétt með þægilegri sýru, svolítið míneralískt. Hrikalega gott fyrir verðið. Reynið með skelfiski, t.d. humar.

2.298 krónur. Fær hálfa stjörnu aukalega fyrir hlutfall verðs og gæða.

Deila.