Nýsjálendingar sækja fram

Nýsjálensk vín hafa verið að sækja fram um allan heim á síðustu misserum og náðu m.a. frábærum árangri í í stærstu vínkeppni heims, Decanter World Awards á dögunum. Veittar eru viðurkenningar í margvíslegum flokkum en alls voru 502 nýsjálensk vín skráð til leiks. Af þeim hlutu 92% viðurkenningu af einhverju tagi en ekkert annað ríki getur státað af viðlíka hlutfalli.

Meðal vinningshafa voru nokkrir framleiðendur sem hér eru fáanlegir. Ein þrettán vín frá St. Clair fengu verðlaun, sjö frá Spy Valley auk vína frá Matua, Framingham, Stoneleigh og Villa Maria.

Svipað var uppi á teningnum í International Wine Challenge 2012 en tilkynnt var um úrslit þar á dögunum. Alls fengu nýsjálensk vín 26 gullverðlaun sem er 25% meira en í fyrra. Einungis fimm ríki fengu fleiri verðlaun en Nýja-Sjáland þegar á heildina er litið, sem er athyglistvert í ljósi þess að Nýja-Sjáland er með smæstu vínframleiðsluríkjum heims.

Meðal þeirra vína sem hlaut gullverðlaun var Pinot Noir frá St. Clair.

Deila.