Kökusleikjó – Cake Pops

Kökusleikjóar eða Cake Pops hafa verið hálfgert æði Vestanhafs síðustu misserinn en þetta eru eins og nafnið gefur til kynna kökur sem festar eru á sleikjópinna og skreyttar með margvíslegum hætti.

Upphaflegu kökusleikjóarnir eru yfirleitt raktir til bloggarans Angie Dudley. Hún kallar sig Bakerella og byrjaði fyrir nokkrum árum að gera kökusleikjóa er hæfðu ólíklegustu tækifærum. Það voru jólasleikjóar, halloweensleikjóar, Hello Kitty-sleikjóar og svo auðvitað sérstakir Cake Pops í tengslum við kosningar og aðrar uppákomum.

Það er tiltölulega auðvelt að gera Cake Pops. Fyrst þarf að baka köku, brúnköku, svampköku eða þessa vegna Red Velvet-köku allt eftir því hvort að þið vijið brúnar, ljósar eða rauðar kökur. Það er jafnvel hægt að nota tilbúið kökumix og krem.

Þegar kakan hefur kólnað er hún mulin niður í skál og blandað saman við krem, súkkulaðikrem fyrir súkkulaðikökur, ljóst krem fyrir aðrar kökur. Best er að blanda þessu saman í höndunum og finna réttu hlutföllinn, þegar auðvelt er að móta kúlur úr blöndunni er hún tilbúin. Kælið kremið í ísskáp og leyfið því að harðna áður en kúlurnar eru síðan mótaðar.

Búið til litlar kúlur og setjið á pinna. Dýfið pinnanum fyrst í súkkulaðibráð. Geymið í ísskáp ef þið ætlið ekki að nota strax.

Þá er þeim dýft ofan í súkkulaðibráð. Það er hægt að nota hvítt súkkulaði eða dökkt súkkulaði. Í Bandaríkjunum er líka vinsælt að nota sykurbráð sem þeir kalla Candy Melt og getur verið í öllum regnbogans litum. Candy Melt höfum við t.d. séð í Kosti hér á landi og allt sem þarf er líka hægt að fá hjá Allt í köku.

Næsta skref er svo að skreyta sleikjóana. Það er hægt að dýfa þeim ofan í kókosmjöl eða nota kökuskraut af ýmsu tagi til að gera þá litríka eða jafnvel búa til fígúrur. Leyfið ímyndunaraflinu að ráða. Ekki hafa áhyggjur af því þó að þeir líti ekki út eins og hjá Bakerella.

Loks er þeim komið fyrir á einvers konar standi – til dæmis er hægt að stinga þeim ofan í frauðplast – og bornir fram.

Skráðu þig á póstlistann með því að smella hér og fáðu reglulegt fréttabréf.

Deila.