Valhnetubrauð

Valhnetubrauð eða pain aux noix eru vinsæl í Frakklandi og sömuleiðis á norðurhluta Ítalíu. Þau eru til dæmis afbragðsgóð með góðum ostum.

  • 9 dl spelthveiti
  • 5 dl valhnetur
  • 1 bréf þurrger
  • 1-2 msk fljótandi hunang
  • 0,5 dl ólífuolía
  • 3 dl vatn, volgt
  • 1 tsk salt

Byrjið á því að rista hneturnar. Setjið þær á bökunarpappír í 200 gráðu heitum ofni. Eftir um tíu mínútur eru hneturnar teknar út. Leyfið þeim að kólna og saxið síðan niður.

Hitið vatnið. Það á að vera volgt en ekki heitt. Setjið olíu, ger og hunang út í vatnið og pískið saman. Látið standa þar til að gerið er farið að mynda eins konar „froðu“, ca 3-5 mínútur.

Blandið saman hveitinu, saltinu og söxuðum hnetunum. Hrærið síðan vatninu saman við í nokkrum skömmtum.

Hnoðið deigið vel í nokkrar mínútur, setjið síðan í skál með viskustykki yfir og leyfið því að hefa sig í um eina og hálfa klukkustund.

Hnoðið deigið varlega og mótið í það form sem þið viljið hafa brauðið í. Leyfið því að lyfta sér aftur í um hálfa klukkustund.

Bakið í 35-40 mínútur við 200 gráður.

 

 

 

Deila.