Daim-kaka

Þetta er ekta amerísk nammikaka stútfull af Daim. Algjört sælgæti.

  • 360 g hveiti
  • 3 tsk lyftiduft
  • 1/4 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk múskat (best er að rífa niður múskathnetu)
  • 300 g Daim, saxið gróft niður með hníf
  • 1 dl möndlur, fínmuldar í matvinnsluvél
  • 220 g smjör
  • 300 g sykur
  • 35 g púðursykur
  • 4 egg
  • 2,5 dl AB mjólk
  • 1 tsk vanilludropar

Sigtið hveiti og setjið í skál. Blandið saman við lyftiduft, matarsóda, múskat, salt og fínmuldar möndlurnar. Blandið grófsöxuðu Daim-inu í annarri skál saman við einni matskeið af hveitiblöndunni og geymið.

Þeytið smjörið í 2-3 mínutur með handþeytara eða í matvinnsluvél. Blandið sykrinum saman við og þeytið áfram í 2 mínútur. Þá er púðursykri bætt við og þeytt áfram í mínútu og síðan eggjunum, einu í einu og þeytt vel á milli og loks vanilludropunum.

Nú þarf að þeyta hveitiblönduna og AB-mjólkina saman við. Takið hveitið í þremur skömmtum og AB-mjólk í tveimur skömmtum til skiptis þannig að fyrsti og síðasti skammturinn sem fer ofan í er hveiti. Ekki ofþeyta deigið.

Smyrjið 24-26 sm smelluform og hellið deiginu í.

Bakið við 175 gráður í um klukkustund. Stingið hníf ofan í kökuna eftir 55 mínútur til að athuga hvort að hún sé bökuð. Við höfum lent í að þurfa að baka hana í allt að 70 mínútur í 24 sm formi.

Það má svo sigta smá flórsykur yfir kökuna áður en að hún er borin fram.

Skráðu þig á póstlistann okkar með því að smella hér og fáðu reglulegt fréttabréf með nýjustu vínunum, uppskriftunum og veitingahúsunum.

Deila.