Einfaldur kjúklingur með gulrótum og fersku salati

Kjúklingur er fínn hversdagsmatur sem auðvelt er að gera góða máltíð úr. Og svo verður auðvitað að hafa gott salat með en þetta er í miklu uppáhaldi hjá okkur.

En fyrst að kjúklingnum og gulrótunum.

 • 1 kjúklingur bútaður í bita
 • 400-500 g gulrætur, skornar í grófa bita
 • 1-2 rósmarínstönglar
 • 2 tsk salvía
 • salt og pipar
 • ólífuolía

Skerið gulræturnar niður í bita og setjið í eldfast form ásamt rósmarínstönglunum. Sáldrið smá Maldon-salti og góðri ólífuolíu yfir. Raðið kjúklngabitunum yfir og kryddið með salvíu, salti og pipar.

Eldið við 200 gráður í um 45-50 mínútur eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður. Snúið bitunum við eftir um 30 mínútur.

Og á meðan má gera salatið en í það þarf:

 • lambhagasalat/romaine eða annað gott salat
 • 1 rauð paprika
 • 1/2 agúrka
 • kirsuberjatómatar
 • skalottulaukur
 • 1 lúka steinselja, helst flatlaufa
 • 1 væn lúka valhnetur
 • 2-3 msk súltaninur
 • Pecorino Romano (eða Parmesan)
 • fyrsta flokks ólífuolía
 • Maldon salt og nýmulinn pipar

Setjið hneturnar á bökunarpappír inn í 200 gráða ofn í um 4-5 mínútur.

Skerið grænmetið mjög smátt og setjið í skál. Fínsaxið skalottulaukinn og steinseljuna og blandið saman við. Grófsaxið hneturnar og setjið í skálina ásamt súltanínum. Blandið smá skvettu af hágæða ólífuolíu saman við. Eftir því sem hún er betri þarf að nota minna. Rífið Pecorino Romano ost yfir eftir smekk. Kannski 2-3 matskeiðar. Bragðið til með salti og pipar.

Deila.