Vanilluskyrterta með Grenadinehjúpi

Skyrtertur eru alltaf vinsælar og þær gerast ekki mikið ljúffengari en þessi skyrterta sem er bragðbætt með vanilludropum og þakin sætum hjúp úr Grenadine og berjalíkjör.

Botninn

  • 200 g Grahams Digestive hafrakex
  • 75 g smjör 

Myljið  kexið í matvinnsluvél og bætið síðan smjörinu út í. Þekjið botninn í 25 sm smelluformi með kexblöndunni.

Skyrblandan

  • 1 kg hreint skyr
  • 5 dl rjómi
  • 200 g sykur
  • 2 egg 
  • 3 eggjarauður
  • 1 msk vanilludropar
  • 9 matarlímsblöð
  • 1 dl vatn

Leggið matarlímsblöðin í bleyti í köldu vatni.

Þeytið saman eggin, eggjarauðurnar og sykurinn  þar til að blandan er orðin létt og ljós. Að minnsta kosti fimm mínútur.

Í annarri skál er rjómi, skyr og vanilludropar þeyttir saman.

Hitið 1 dl af vatni upp að suðu og takið af hitanum. Takið matarlímsblöðin úr kalda vatninu og kreystið vatnið úr þeim. Setjið blöðin í heita vatnið og leysið upp.

Þeytið matarlímsblönduna rólega saman við eggjablönduna. Þeytið þeirri blöndu síðan varlega saman við skyrblönduna. Hellið í formið ofan á kexbotninn.

Geymið í ísskáp á meðan tertan er að stífna.

Grenadinehjúpur

  • 50 ml Grenadinesíróp
  • 50 ml berjalíkjör, t.d. Créme de Cassis eða De Kuyper Wild Strawberry
  • 50 ml vatn
  • 2 matarlímsblöð

Mýkið matarlímsblöðin í köldu vatni. Hitið Grenadine, líkjör og vatn. Kreystið kalda vatnið úr matarlímsblöðunum og leysið upp í heitri blöndunni. Leyfið að kólna og hellið siðan yfir kökuna. Geymið kökuna í ísskáp á meðan hjúpurinn er að stífna.

Deila.