Rauðvínssósa með nautasteikinni

Þetta er klassísk frönskættuð rauðvínssósa sem hentar sérstaklega vel með góðri nautasteik, annað hvort hægelduðu ribeye eða nautalund. Best er nota nokkuð kröftugt rauðvín í sósuna.

  • 5-6 skalottulaukar
  • 2-3 hvítlauksgeirar
  • 1 rósmarínstöngull
  • 1 lárviðarlauf
  • 1 dl bragðmikið edik, t.d. balsamikedik eða sérríedik.
  • 5 dl rauðvín
  • 4 dl gott kjötsoð (helst heimatilbúið en annars úr góðum krafti)
  • smjör
  • salt og pipar

Sneiðið laukana í þunnar sneiðar. Hitið smjör á pönnu og steikið laukinn í 3-4 mínútur. Hann á að byrja að taka á sig lit. Kremjið hvítlauksgeirana með hnífsblaði og setjið á pönnuna ásamt rósmarínstönglinum og lárviðarlaufinu. Steikið áframí 2-3 mínútur. Það þarf að brúna laukinn vel en hann má ekki brenna mikið.

Hellið nú edikinu á pönnuna og leyfið því að sjóða nær alveg niður. Þá fer rauðvínið á pönnuna ásamt soðinu. Látið malla áfram á miðlungshita þar til að vökvinn hefur soðið niður um að minnsta kosti 2/3. Eftir því sem sósan er soðin lengur verður hún sætari og bragðmeiri. Ef hún er soðin of stutt verður sýran úr víninu meira áberandi. Bragðið á henni reglulega og smakkið til með salti og pipar.

Undir lokin standið þið frammi fyrir vali. Þið getið síað laukinn frá sósunni eða leyft honum að vera áfram. Okkur finnst langbest að hafa laukinn með. En rósmarínstöngulinn, lárviðarlaufið og hvítlaukana þarf að veiða upp úr.

Í lokinn er vænni matskeið af smjöri hrært saman við sósuna. Berið fram t.d. með Hasselback kartöflum og steiktum grænum strengjabaunum (haricot verts).

Fleiri góðar sósur með kjötinu má svo finna með því að smella hér.

Deila.