Bava Bass Tuba Moscato d’Asti 2010

Moscato-vínin frá Asti í Piedmont á Ítalíu eru æði misjöfn. Þau geta verið skelfileg og þau geta verið seyðandi og unaðsleg. Bass Tuba frá Bava er vín sem fellur í síðari flokkinn.  Vín sem dregur vel fram hin unaðslega bragðprófíl Moscato-þrúgunnar og nær að viðhalda fullkomnu jafnvægi á milli sýru, ferskleika og töluverðrar sætu.

Þetta er vín sem hægt er að nota sem eftirréttarvín en þetta er líka þægilegur fordrykkur, þótt vínið sé sætt. Það er létt (5%) og færir með sér suðrænan sumaryl. Freyðir eða kannski öllu heldur perlar létt (það sem Ítalar kalla frizzante) og með angan af blómakörfu og þroskuðum apríkósum, melónum og mangó. Þykkt og sætt í munni en með þægilegri sýru sem gefur víninu líf og léttleika. Berið fram mjög vel kælt í venjulegum hvítvínsglösum, það nýtur sín betur þar en í freyðivínsglasi.

2.490 krónur.

Deila.