Alianca Quinta dos Quatro Ventos Douro 2008

Fljótið Douro rennur í Atlantshaf við borgina Porto í Portúgal og sé siglt aðeins upp fljótið kemur maður fljótlega í hið stórfenglega víngerðarhérað Douro sem lengi vel var þekktast fyrir að vera upprunastaður púrtvína, sem auðvitað eru kennd við borgina Porto. „Venjuleg“ vín frá Douro, þ.e. rauðvín sem ekki eru styrkt með spíra líkt og púrtvín, eru smám saman að ryðja sér til rúms enda um einhver athyglisverðustu og bestu vín Portúgal að ræða. Algengustu þrúgurnar eru Touriga Nacional, Touriga Francesa og Tinto Roriz, en sú síðastnefnda heitir Tempranillo á spænsku og t.d. ræktuð í héraði við Douro (Duero) Spánarmegin við landamærin, þ.e. í RIbera del Duero.

Quinta dos Quatro Ventos frá Alianca, sem er eitt stærsta vínhús Portúgal, er dæmigert Douro-vín. Dökkt á lit, skarpur, svolítið beittur og harður ávöxtur, plómur, svört ber, kryddjurtir, kaffi og tóbaksblöð.  Eikað, sýrumikið, nokkuð kraftmikið. Með grilluðu nauta- og lambakjöti.

3.199 krónur.

Deila.