Einföld súkkulaðikaka með Dulce de Leche karamellusósu

Eg hef áður sett inn uppskrift af einfaldri súkkulaðiköku en hér hef ég bætt við karamellusósu.  Þetta er sáraeinföld uppskrift. Það eina sem getur verið erfitt að finna og fæst ekki allstaðar er svokallað Dulce de Leche. Ég keypti dósina í Hagkaup í kringlunni. og hún er frá Stonewall kitchen.  Ég læt hér fylgja með mynd af dósinni.

dulche de leche

 

Það er vel þess virði að gera sér ferð og kaupa þessa dós því sósan er unaðsleg og gefur skemmtilegan karamellukeim. Það er líka hægt að gera sína eigin dulche de leche með því að sjóða niðursoðna sætmjólk (condensed milk). Niðursuðudósinn er sett óopnuð í pott ásamt vatni og soðin í allt að þrjár klukkustundir. Sætmjólkin breytist þá í unaðslega karamellu eða dulche de leche. (Sjá góða athugasemd frá Ellý Hauksdóttur í kommentakerfinu hér að neðan ef að þið farið þessa leið).

 

 

 

Kökubotninn:

 • 150 gr.smjör
 • 3 dl sykur
 • 2 egg
 • 2 dl hveiti
 • 1 dl kakó
 • 1 tsk lyftiduft
 • 3-4 tsk vanillusykur
 • smá sjávarsalt

Hitið ofninn í 175  g. Bræðið smjörið í potti eða örbylgjuofni. Hrærið saman sykur og egg og bætið síðan bráðnaða smjörinu saman við. Setjið síðan öll þurrefnin út í og hrærið.    Hellið síðan deiginu í lausbotna form (ég notaði 24 cm). Gott er að setja smjörpappír í botninn til að geta losað kökuna frá botninum þegar hún er borin fram. Bakið síðan kökuna í 17-25 mín í miðjum ofninum.  Kakan á að vera svolítið blaut í miðjunni.  Kælið kökuna áður en karamellukremið er sett á.

Karamellusósa:

 • 1 dl rjómi
 • 100 gr dökkt súkkulaði (gjarnan með sjávarsalti, t.d. Lindt A touch of Sea Salt)
 • 2 vænar tsk smjjör
 • 1 tsk sjávarsalt
 • cirka 4 msk dulce de leche( smakka sig svolítið áfram , fer svolítið eftir smekk)

Setjið rjómann í pott, látið suðuna koma upp og takið þá pottinn af hellunni. Bryðjið siðan súkkulaðið út í og bræðið. Setjið smjörið út í og bræðið saman við. Þá sjávarsalt og að lokum  um 3 vænar msk af dulce de leche. Setjið karamellusósuna yfir kökuna.

Blandið einni skeið af Dulce de Leche og blandið saman við tæpri tsk af vatni  þannig að karamellan verður meira fljótandi. Hellið  ofan á karamellusósuna og dreifið úr með hnífsoddi þannig að út komi  fallegt munstur.

Kælið kökuna þar til að hún er borinn fram. Gott er að hafa þeyttan rjóma eða ís með.

Deila.