Peter Lehmann Futures Shiraz 2009

Fyrsta vínið sem Peter Lehmann framleiddi var kallað „Futures“ og var selt í eins konar framvirkum viðskiptum til vina og kunningja sem vildu styðja við bakið á honum og voru reiðubúinn að borga vínið þótt þau fengu það ekki afhent fyrr en tveimur árum síðan. Nú er Lehmann með öflugustu framleiðendum Ástralíu og vínið sem ber nafnið Futures skipar ávallt sérstakan sess í framleiðslu fyrirtækisins.

Þrúgurnar eru af gömlum Shiraz-vínvið frá Barossa-dalnum í Suður-Ástralíu, sem skilar sér í öflugu og mjög samþjöppuðu víni. Dökkt, þungt, eikað. Angan af mjög þroskuðum ávöxtum, plómum, krækiberjum, sólberjum. Þarna er líka mokkakaffi og kókos með örlitlum lakkrís. Vínið er mjúkt, þykkt í munni, eikin áberandi. Vín fyrir grillað kjöt, naut og lamb, jafnvel villibráð.

2.999 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.