Þetta ítalska lambalæri er marinerað áður en að það er grillað eða eldað í ofni með ólífum, sveskjum, skalottulauk og hvítvíni.
- 1 lambalæri, úrbeinað
- 2-3 stönglar rósmarín
- 1 sítróna, skorin í bita
- 10-12 hvítlauksrif, marin
- 1 rauðlaukur, skorinn í bita
- 1,5 dl ólífuolía
- salt og pipar
Blandið öllu saman í skál og setjið í stóran frystipoka ásamt lambalærinu. Geymið í ísskáp yfir nótt. Takið lærið úr pokanum og hendið marineringunni.
Við elduðum lærið á grilli og byrjuðum á því að grilla það nokkrar mínútur á hvorri hlið. Þá er komið að næsta skrefi. Við þurfum:
- 1-2 dósir grænar steinlausar ólífur
- 10 skalottulaukar, hreinsið utan af laukunum
- 2 lúkur sveskjur
- 1 flaska hvítvín
Setjið sveskjur, ólífur og lauk í ofnfast form, helst steikarform með grind ásamt 2/3 af hvítvíninu. Leggið lærið á grindina og lækkið hitann verulega á grillinu. Eldið við um 150 gráður í ca 45 mínútur á lokuðu grillinu. Takið þá lærið úr og látið standa við stofuhita.
Á meðan er afganginum af hvítvíninu bætt út í steikarformið/ofnskúffuna og hitinn hækkaður. SJóðið niður í nokkrar mínútur á meðan sósan þykkna. Það má líka setja þetta í pott og sjóða niður í nokkrar mínútur.
Lambið er auðvitað líka hægt að elda í ofni í stað þess að hafa það á grillinu. Setjið í steikarskúffuna og eldið í 45-60 mínútur við 175 gráður áður en það er tekið út.
Setjið sósuna með ólífunum, sveskjunum og laukunum á fat. Sneiðið kjötið niður og leggið ofan á. Berið fram t.d. með ofnbökuðu rótargrænmeti.
Gott rauðvín t.d. frá Piemont á Ítalíu. Við mælum með G.D. Vajra Nebbiolo sem er frábært matarvín.
 
								
				 
					
										
												
				


 
	
											 
	
											