Lamb með bláberjasósu

Páskalambið er hryggur með bláberjasósu, að flestu leyti hefðbundin matreiðsla á lambakjötinu en það er sósan sem gerir þennan rétt einstakan og ógleymanlegan. Þar er frískleg og bragðgóð blanda við lambið sem hittir nákvæmlega í mark: bláber, rósmarín, smá angan af kanil og sinnepi.

Það sem þarf er þetta:

 • 1 stk lambahryggur
 • salt og pipar að smekk
 • 1 tsk olía
 • 2 tsk Dijon sinnep
 • 1 tsk smátt skorið ferskt rósmarín
 • 1/8 tsk kanill
 • ¼ tsk cumin
 • 1 lítil askja af ferskum bláberjum
 • 1 bolli/2,5 dl af rauðvíni
 • 1 tsk rauðvínsedik
 • klípa af smjöri

 

Hryggurinn er snyrtur og fitan fjarlægð, síðan er hann höggvinn í tvennt til þess að komast með góðu móti á þokkalega stóra steikarpönnu. Ef pannan er ekki mjög stór og aðeins fjórir við matarborðið dugar hálfur hryggur!

Hryggurinn er þessu næst hressilega kryddaður með salti og pipar að smekk og síðan brúnaður á pönnu á öllum hliðum á meðalhita í olíiu. Þá er búið til kryddmauk úr Dijon sinnepi, fersku rósmarín, örlitlum kanil og cumini. Þetta er hrært vel saman og smurt yfir hrygginn. Hryggurinn er lagður til hliðar og byrjað á sósunni með því að svissa skarlottalaukinn á meðalheitri pönnu í fáeinar mínútur – og salti stráð yfir. Þá eru bláberjunum bætt á pönnuna og hrært rólega saman við laukinn. Þegar berin eru orðin svört og gljáandi eftir fáeinar míntur er slökkt á hitanum og einum bolla af rauðvíni bætt út á pönnuna. Þegar þetta hefur kraumað um stund er hryggnum komið fyrir ofan á sósunni í pönnunni og nýmuldum pipar stráð yfir áður en pannan er sett í 180 gráðu ofn í 20 mínútur eða svo.

Þegar eldunartíminn er liðinn er nauðsynlegt að leyfa hryggnum að jafna sig í tíu mínútur eða svo áður en hann er skorinn og borinn fram. Á meðan kjötið bíður er tekinn snúningur á sósuna með því að bæta í hana teskeið af rauðvínsediki og að endingu smjörklípu en þá verður að vera búið að slökkva á hitanum.

Meðlæti: ofnbakaðar kartöflur eða kartöflugratín og grænt fersk salat.

Fleiri uppskriftir að lambakjöti má finna hér.

Deila.