Guðrún Jenný bloggar: Hindberjasnittur – danskt „bakkelsi“


Þegar ég er í Danmörku þá er fastur liður að fara í bakarí og fá sér eins og eina hindberjasnittu.  Þetta bakkelsi er eitt af mínu uppáhalds – ég held að það sé blandan af sætum glassúrnum og sýrunni í hindberjasultunni.

Ég hef ekki rekist á þessar snittur í mörgum íslenskum bakaríum og af því að ég ákvað fyrir einhverjum árum að baka sem mest sjálf þá birti ég þá uppskrift sem ég nota þegar þetta gúmmulaði er bakað.   Upphaflega fann ég þessa uppskrift á dr.dk þar sem hún Mette Blomsterberg bakaði þetta með dætrum sínum.  Þættirnir henna Mette hafa líka verið sýndir í sjónvarpinu hérna heima.

Deigið:

  • 1 vanillustöng
  • 140 g flórsykur
  • 300 smjör (við stofuhita)
  • 500 g hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 dl vatn

Fylling:

  • Hindberjasulta / hindberjamarmelaði

Ofan á:

  • 200 g flórsykur
  • Smávegis af vatni
  • Matarlitur (ef þið viljið)

Skraut

Byrjið á því að kljúfa vanillustöngina og skafa úr henni litlu kornin.  Notið hnífsoddinn til að merja vanillukornin saman við ca 1 msk af flórsykrinum.  Þegar þetta hefur blandast vel saman hrærið þá þessari msk af flórsykri með vanillukornunum saman við restina af flórsykrinum.  Setjið öll hráefnin nema vatnið í hrærivél og látið vélina ganga aðeins þannig að deigið fer að koma saman, bætið þá vatninu við í smáskömmtum.  Passið að hræra ekki of mikið.  Kælið nú deigið í a.m.k. hálftíma.

Rúllið því svo út í tvö aflöng stykki sem eru jafnstór.  Snyrtið kantana til og skerið langsum eftir stykkjunum þannig að þið hafið nú fjögur stykki jafnstór.  Bakað við 200°C í ca 10-12 mín.  Passið að baka ekki of lengi – kökurnar eiga ekki að dökkna.  Þegar kökurnar eru tilbúnar kælið þær í ca 15 mín.

Smyrjið tvær lengjur með hindberjasultu/-glassúr og leggið hinar ofan á.  Búið til glassúr úr flórsykri og vatni og litið hann ef þið kjósið.  Svo hellið þið glassúrnum ofan á lengjurnar og smyrjið úr honum þannig að hann þekji yfirborðið alveg.  Stráið skrauti yfir.

Ég sker lengjurnar svo í þríhyrninga og það er best með því að hafa sjóðandi heitt vatn í könnu og hita hnífinn vel með því að setja hann í vatnið.  Ef hnífurinn er hafður heitur þegar þið skerið þá brotna kökurnar síður.

Stundum sker ég út smákökur úr afgangnum af deiginu og set sultu á milli og glassúr ofan á.

 

Deila.