Copenhagen Beer Celebration í Kaupmannahöfn

Kaupmannahöfn hefur á siðustu árum verið einn heitasti viðkomustaður bjórnörda í heiminum. Ekki það að þá þyrsti í Carlsberg heldur eru barir og ölverslanir sem leggja áherslu á spennandi bjóra á heimsmælikvarða í Kaupmannahöfn. Haukur Leifsson, fulltrúi Vínóteksins fór út til að kanna stemmninguna í Köben og heimsótti m.a. bjórhátíðina Copenhagen Beer Celebration sem haldin var í annað skipti fyrr í mánuðinum.

Þegar bjórfrumkvöðullinn Mikkel Bergsjo, eigandi og stofnandi Mikkeller brugghússins, setti saman þessa hátið að þá var hugmyndin afar einföld; bestu brugghús í heimi skyldu vera þar samankomin og allir bjórar sem þú getur í þig látið á þeim tíma sem þú ert á hátiðinni. Ef það er ekki nóg þá voru kokkar á staðnum frá bestu veitingastöðum í Kaupmannahöfn til að sjá um að þú hlaðir rafhlöðurnar á milli bjóra. Hátíðin var haldin í þremur „hollum“ í Sparta hlaupahöllinni. Eitt fimm klukkutíma „session“ á föstudeginum og tvö jafnlöng „session“ á laugardeginum. Hægt var að kaupa armband á stakt „session“ en einnig armband sem gilti á alla hátiðina. Þar sem greinarhöfundi er annt um líf sitt að þá voru tvö „session“ keypt í staðinn fyrir alla hátiðina.

Strax áður en opnað var inn á föstudeginum var gríðarleg stemning meðal hátiðargesta fyrir utan hlaupahöllina. Björnördar og almennir áhugamenn um ölmenningu voru mættir saman allstaðar að úr heiminum og eftirvæntingin var hreinlega að fara með sálarlíf margra í röðinni. Sumir voru með áætlun um hvaða brugghús átti að heimsækja fyrst en aðir voru hreinlega að hugsa um hvernig í ósköpunum væri hægt að komast yfir alla þá bjóra sem voru í boði. Úrval brugghúsa var ekki af verri endanum, hér var á einum stað búið að troða saman þvi allra besta sem „míkró“ bruggmenning í heiminum hefur upp á að bjóða. Ekki var á nokkurn hátt hægt að gera upp á milli brugghúsa og brugggerðarmanna eins og Mikkeller, Three Floyds, To Øl, Surly, Cigar City, Firestone Walker, Kuhnhenn, Lagunitas, Jester King og Kernel. Úrvalið var hreint endalaust. Einnig var hægt að finna brugghús frá Asíu eins og Baird frá Japan og Boxing Cat frá Kína. Hér var greinilega ætlunin að troða bestu bruggurum veraldar undir sama þak og láta bjóráhugamenn hreinlega ganga af göflunum.

Þegar komið var inn var farið strax í léttan bjór og komið sér fyrir. Greinarhöfundur byrjaði á þvi að svala þorstanum með Kernel London Sour Raspberry, frábærum „Berliner Weisse“, bjórstíll sem er nánast útdauður en þökk sé frábærum bruggurum eins og Kernel að þá er honum haldið við. Súr ávaxtabjór sem kom bragðlaukunum af stað. Eftir þennan ljúffenga bjór að þá gerði maður sér ljóst að þetta væri ómögulegt verkefni, þ.e. að reyna að smakka allt það sem var í boði. Glasið var lítið en bjórarnir of margir. Stefnan var því sett á það eitt að reyna að taka það allra besta af þessu mikla úrvali á sem skemmstum tima.

Á næstu dögum munu birtast pistlar eftir Hauk þar sem hann segir frá smökkunum sínum á þessum athyglisverðustu bjórum heims. Hægt er að fylgjast með þeim pistlum eftir því sem þeir birtast með því að smella  hér.

 

 

 

Deila.