Haukur bloggar: Nokkrir áhugaverðustu bjórar Bandaríkjanna

Nokkur af áhugaverðustu brugghúsum Bandaríkjanna voru mætt á bjórhátíðina Copenhagen Beer Celebration og segir Haukur Leifsson hér frá heimsókn sinni til þriggja þeirra.

Surly er brugghús sem vakti mikla athygli á Copenhagen Beer Celebration. Surly eru frá Minneapolis og hafa hlotið mikið lof fyrir bæði India Pale Ale bjóra og Imperial Stout. Todd Haug, aðalbruggari og andlit brugghúsins út á við, sem sjá má á myndinni hér að ofan, var á staðnum og fræddi gesti og gangandi um hina eftirsóttu Surly Darkness og Surly Furious. Að fá að smakka Surly bjóranna voru mikil forréttindi enda erfitt að nálgast þá utan Minnesota. Surly er ákaflega gott dæmi um brugghús sem hefur þróast frá heimabruggi yfir í eitthvað mjög stórt.

Eigandi brugghúsins, Omar Ansahari, byrjaði að brugga bjór í bílskúrnum sínum árið 1994 og varð afar vinsæll meðal vina og kunningja fyrir að gera frábæran bjór. Hann sendi síðan út bjórflöskur með boðskortum í brúðkaup sitt árið 2002 og eftir það var ekki aftur snúið. Öllum fannst þetta frábær bjór og á endanum voru heimabrugg græjurnar orðnar það fyrirferðarmiklar að þær komust ekki lengur fyrir í bílskúrnum. Hann ákvað því að leggja allt undir og stofna Surly brugghúsið og fékk með sér í lið áðurnefndan Todd Haug, sem var þá bruggari fyrir Rock Bottom. Eftir það hafa Surly bjórarnir verið afar eftirsóttir og að fá þessa mikla meistara til að hella í glas fyrir sig verða að teljast forréttindi fyrir bjóráhugamenn.

Kuhnhenn

 

Kuhnhenn fjölskyldan frá Michigan byrjaði að gera mjöð árið 1995. Eftir það lá leiðin í bæði bjór og vín og voru Bret og Eric Kuhnhenn staðráðnir í að veita þeim sem voru fyrir á hinum stóra „micro“ brugg markaði í Michigan harða samkeppni.

Saga brugghúsins er ansi merkileg. Það fór enginn í banka og bað um fé heldur byrjaði fjölskyldan frá grunni. Bræðurnir áttu byggingarvöruverslun – sem fór á hausinn – en þeir fengu að selja varning úr henni til að eiga upp í skuldir. Það sem eftir stóð þegar skuldirnar höfðu verið greiddar voru tæpir tíu þúsund dollarar. Þá var allt lagt undir og aleigan fór í fyrstu gerjunartankana. Smátt og smátt breyttist byggingarvöruverslunin í lítið brugghús.

Þeir létu strax til sín taka í heimabruggs samfélaginu í Michigan. Heimabruggurum var boðið að nota tankana þangað til að eftirspurnin eftir þeirra eigin bjór var orðin svo mikil að ekki var lengur hægt að bjóða fólki að koma og brugga. Mjöðurinn sem þeir brugguðu reyndist afbragð og fyrr en varði var bjórinn þeirra einnig á allra vörum. Bret Kuhnhenn segir að munurinn á bjór og mjöð sé ekki mikill, mjöður (sem gerður er m.a. úr hunangi) getur verið afskaplega flókinn drykkur og áætlunin var að leika það eftir með bjór.

Eric Kuhnhenn eldri, faðir bræðranna, tjáði greinarhöfundi á hátiðinni að fjölskyldan væri afar stolt af bjórunum sínum, og að uppáhalds bjórinn hans væri Kuhnhenn Simcoe Silly, sem er bruggaður að belgiskri fyrirmynd, með belgísku geri en humlaður með hinum frábæra Simcoe humal. Hann skenkti greinarhöfundi í glas og beið spenntur eftir dómi. Þetta var frábær bjór, griðarlega mikil sítróna og banani, afskaplega flókinn og bitur.

Það sem vakti hins vegar mesta athygli og var að mati greinarhöfundar var einn besti bjórinn á hátíðinni var Kuhnenn Raspberry Eisbock. Griðarlega stór bjór, enda 13.5% að styrk í áfengismagni. Bjórinn var griðarlega sætur og hindberin voru ákaflega fyrirferðarmikil á tungunni. Maltið í bjórnum passaði fullkomnlega við hindberin og mun þessi bjór lifa lengi í minni.

 

Cigar City

 

Það var heilmikið umtal í kring um tvö brugghús á hátíðinni. Annars vegar Three Floyds frá Indiana og hins vegar Cigar City frá Flórída. Þessi brugghús eru afar fræg fyrir að brugga allra bestu Imperial Stout bjóra í Bandaríkjunum og eru bæði brugghúsin afar hátt metin vestanhafs. Cigar City voru með þrjá árganga af Hunahpu Imperial Stout og myndaðist mikil röð hjá þeim. Three Floyds voru með nokkrar útgáfur af Dark Lord Imperial Stout og má segja að það hafi verið eftirsóttasti bjórinn á hátíðinni. Þessi tvö brugghús brugga samt fleiri frábæra bjóra og var Zombie Dust frá Three Floyds einn besti Pale Ale sem hátíðin hafði fram að færa. Skemmtilegt hefði verið að eyða meiri tíma með þessum frábæru Bandaríkjamönnum en aðsóknin var svo gríðarleg að ekki gafst færi á að tala við þá.

Deila.