Sætar kartöflur og kryddaðar – með limesósu

Sætar kartöflur eru hér smurðar með kryddolíu áður en þær eru grillaðar og síðan bornar fram með sósu úr sýrðum rjóma og lime. Frábært meðlæti með grillmatnum.

  • 2 stórar sætar kartöflur
  • 1 tsk cummin
  • 1/2 tsk Cayennepipar
  • salt og pipar
  • 3 msk matarolía

Sjóðið sætu kartöflurnar í um 20 mínútur. Leyfið að kólna vel.  Hýðið utan um kartöflurnar ætti að hafa losnað vel frá þannig að auðvelt er að taka það af.

Skerið í tvennt á lengdina. Skerið bitana aftur í tvennt á lengdina og jafnvel einu sinni enn til að fá um 2 sm þykka bita.

Hitið olíuna á lítilli pönnu. Hún á að vera heit en ekki sjóðheit (þá brenna kryddin). Takið af hitanum. Setjið cummin og cayenne út í. Leyfið að kólna aðeins.

Penslið kartöflubitana með kryddolíunnni. Saltið vel og piprið.

Grillið 3-4 mínútur á hvorri hlið og berið fram með söxuðum kóríander og limesósunni.

Lime-sósa

  • 1 dós sýrður rjómi
  • rifinn börkur af 2 lime
  • safi úr 1 lime
  • 1 lúka fínt saxaður kóríander
  • salt og pipar

Rífið börkinn af lime-ávöxtunum. Notið fínasta hlutann á rifjárninu og takið einungis ysta, græna lagið. Pressið safann úr annarri límónunni. Blandið saman við sýrða rjómann. Saltið og piprið. Rétt áður en sósan er notuð er söxuðum kóríander hrært saman við.

Deila.