Chateau Teyssier 2009

Bretinn Jonathan Malthus festi kaup á Chateau Teyssier í St. Emilion í Bordeaux árið 1994 og hefur verið leiðandi í hópi þeirra sem teljast til „garagistes“-hreyfingarinnar þar í sveit en það er lítill hópur víngerðarmanna sem býr til ofurvín af agnarsmáum blettum. Nánar má lesa um Malthus með því að smella hér. Teyssier, sem er flokkað sem Grand Cru í St. Emilion, er þó alltaf kjarninn í vínunum frá Malthus.

2009 var mjög góður árgangur í Bordeaux og Teyssier ber þess merki. Djúpt og dökkt, enn ungt, massívt og svolítið lokað. Það þarf helst smá tíma. Svört ber og viður í nefi, jafnvel viðarkol og reykur. Langt og djúpt, kröftug en mjúk tannín, þarf töluverðan tíma til að sýna sig. Umhellið. Með bestu steikunum og villibráð.

5.499 krónur.

Deila.