Litli risinn í St. Emilion

Undir lok síðustu aldar kom nýr hópur víngerðarhúsa fram á sjónarsviðið á svæðunum St. Emilion og Pomerol í Bordeaux sem fljótlega hlaut nafnið “bílskúrshreyfingin” eða “les garagistes”. Má rekja nafngiftina til þess að þekktasti vínblaðamaður Frakklands Michel Bettane lýsti þessum víngerðum sem svo í grein að þær ættu það flestar sameiginlegt að starfsemin rúmaðist hæglega í bílskúr.

Ólíkt hinum stóru og þekktu víngerðarhúsum Bordeaux eða Chateau-um sem ráða yfir vínekrum er þekja oft tugi hektara leituðu þessir víngerðarmenn uppi agnarsmáa bletti þar sem aðstæður til vínræktar voru nær fullkomnar og lögðu síðan allt undir í víngerðinni. Þessi litlu hús vöktu fljótt gífurlega athygli og verðið á mörgum þeirra rauk fljótlega upp úr öllu valdi. Má nefna Le Pin, Valandraud, Mondotte og Le Dome í því sambandi.

Einn þeirra sem hafa verið leiðandi í þessari þróun er Bretinn Jonathan Maltus (raunar fæddur og uppalinn að hluta í Afríku) sem festi kaup á vínhúsinu Chateau Teyssier árið 1994. Maltus er stór og mikill maður og maður veltir því fyrir sér þegar maður hittir hann hvort að bílskúrinn þurfi ekki að vera ansi stór til að hann nái að athafna sig. Vínin endurspegla mannin því vínin hans Maltusar eru engin smásmíði og hafa vakið gífurlega athygli um allan heim.

Hann er verkfræðingur að mennt en ákvað við upphaf tíunda áratugarins að hann vildi söðla um og skipta um starfsvettvang. Hann leitaði um skeið að góðri eign í Bordeaux og varð Chateau Teyssier í St. Emilion að lokum fyrir valinu. Teyssier sameinaði það tvennt að þarna var fallegt hús sem hann vildi búa í og vínekrur sem hann taldi búa yfir miklum tækifærum.

Maltus framleiðir nokkur vín í Bordeaux og þekktast þeirra er ofurvínið Le Dome sem keppir við þau allra bestu í Bordeaux. Breska víntímaritið Decanter valdi það besta vín St. Emilion árið 2005 ásamt Chateau Ausone og það er vissulega ekki ódýrt, rúmlega 14 þúsund krónur í vínbúðunum. Séu menn að leita að víni í þessum flokki má þó gera margt vitlausara en að fjárfesta í Le Dome, ég snæddi kvöldverð með Maltus fyrr á árinu og var boðið upp á Dome 2000 með aðalréttinum sem sýndi svo sannarlega að vínið keppir í efstu deild. Tröppugangurinn hjá Maltus er raunar allur mjög spennandi en hann byrjar á víninu frá Chateau Teyssier, semer með betri kaupum sem hægt er að gera í Bordeaux-vínum í dag. Sjálfur er ég ekki síður hrifinn af Grand Destieu en þeir árgangar sem ég hef smakkað, 2004 og 2005 eru báðir þéttir og vínið afskaplega aðgengilegt þrátt fyrir stærð. Þeir sem vilja svo fara enn ofar en ekki alveg upp í Le Dome ættu að líta á Chateau Laforge sem er nokkrum tröpppum fyrir ofan Destieu í stærð jafnt sem verði.

Maltus lét sér hins vegar ekki nægja að fjárfesta í Bordeaux heldur fór fljótlega að svipast víðar um. Hann velti fyrir sér Kaliforníu en endaði í Ástralíu þar sem hann setti á laggirnar vínhúsið Colonial í Barossa. Þau eru gjörólík Bordeaux-vínunum, flest hver úr þrúgunum Shiraz, Grenache og Mourvedre. Dökk, þykk, þung og djúp. Á toppnum trónir Exile sem Robert Parker (sem alla tíð hefur haldið mikið upp á vín Maltusar) gaf nýlega 96 punkta.

Deila.