Ítalskar kjötbollur með ricotta

Kjötbollur er hægt að gera á óendanlega vegu. Þetta eru klassískar ítalskar nautahakksbollur en hér bökum við þær í staðinn fyrir að steikja. Ricotta-ferskost má fá í ostaborðum t.d. í Hagkaup Kringlunni eða Búrinu en það tekur líka nokkrar mínútur að gera sinn eigin ricotta. Aðferðina má sjá með því að smella hér og við þurfum um hálfan skammt í þessa uppskrift.

 • 800 g nautahakk
 • 150 g ricotta
 • 2 egg
 • 1 lúka haframjöl
 • 1 lúka fínsöxuð flatlaufa steinselja
 • 2 msk fínsaxað ferskt óreganó
 • 1 msk fennel
 • 1 tsk chiliflögur
 • salt og pipar

Blandið öllu varlega en vandlega saman í skál. Það er best að nota hendurnar. Mótið kjötbollur svipaðar og golfkúlur að stærð. Gott er að nota ísskeið til þess. Setjið smjörpappír á bökunarplötu og raðið bollunum á plötuna. Bakið í um 20-30 mínútur við 200 gráður.

Á meðan er sósan undirbúin.

 • 4 dl tómatapassata (maukaðir tómatar)
 • 1 dós heilir tómatar
 • 1 laukur fínt saxaður
 • 4-5 hvítlauksgeirar, saxaðir
 • 1 lúka fínsaxað óreganó
 • 1 /2 tsk chiliflögur
 • ólífuolía

Hitið olíuna í þykkum potti. Mýkið laukinn og bætið hvítlauknum og chiliflögum saman við eftir nokkrar mínútur. Hellið næst hvítvíninu út í og látið malla með laukunum í nokkrar mínútur. Bætið passata og tómötum saman við ásamt óreganó. Látið malla á miðlungshita í um 15 mínútur.

Takið bollurnar úr ofninum og setjið varlega í pottinn ásamt vökvanum sem hefur lekið af þeim. Leyfið að malla áfram í 5-10 mínútur.

Berið fram með spaghetti og parmesan. Gott ítalskt rauðvín með t.d. Valpolicella.

Allar kjötbolluuppskriftirnar okkar má sjá með því að smella hér.

Deila.