Redtree Pinot Noir 2010

Betri rauðvín frá Kaliforníu eru því miður allt of sjaldséð hér á landi enda Kaliforníuvínin yfirleitt í dýrari kantinum miðað við önnur „Nýjaheimsvín“. Það kemur þó fyrir að maður rekist á virkilega forvitnileg vín þaðan á meira en vel viðráðanlegu verði. Retree Pinot Noir fellur í þann flokk. Þetta er vandað og fínt Pinot Noir. Fallega ljósrautt á lit með ljúfri berjaangan, stöppuðum hindberjum, jarðarberjum og kirsuberjum, sætur kóngabrjóstsykur, lyng og blóðberg, það vottar fyrir eikinni á bak við, mild vanilla og súkkulaði. Byrjandi þroski. Nokkuð létt í munni, líkt og Pinot er gjarnan, en það hefur dýpt og seiglu og er bara nokkuð margslungið. Það er sjarmi yfir víninu og það fær fjórðu stjörnuna fyrir prýhðilegt hlutfall verðs og gæða.

2.395. Góð kaup.

Deila.