Rivo al Poggio 2011

Rivo al Poggio er rautt Toskanavín frá vínhúsinu Banfi, sem upphaflega var sérstaklega ætlað fyrir Japansmarkað en er nú farið að sækja á frekari mið. Það er flokkað sem IGT en í því felst yfirleitt að þrúgusamsetningin fellur ekki alveg að hefðum héraðsins. Þrúgusamsetningin í þessu víni er þannig að helmingurinn er Toskana-þrúgan Sangiovese en hinn helmingurinn frönsku þrúgurnar Syrah og Merlot.

Þetta er athyglisvert vín, leynir á sér og virkilega gott í sínum verðflokki. Þægileg berjaangan í nefi, rifsberjasulta, kirsuber, súkkulaði, lyng. Mjúkt, mildur ávöxtur, mild tannín, smá bit. Ágætasta vín. Berið það fram með góðum pastarétti – t.d. lasagna.

1.998 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.