Noe

Noe er eitt af þessum einstöku vínum sem eiga eiginlega engan sinn líka. Þetta er sérrí frá Gonzalez Byass en engu að síður ólíkt nær öllum öðrum sérríum sem að eru framleidd. Þrúgan heitir Pedro Ximenes og eftir tínslu eru þrúgunum dreift á mottur og þurrkaðar í sjóðheitri Andalúsíusólinni en sú gamla aðferð er nefnd soleo á spænsku. Þrúgurnar – eða kannski öllu heldur rúsínurnar – er síðan pressaðar og safinn gerjaður áður en styrkt vínið er geymd í að minnsta kosti 30 ár í solera-tunnunum. Útkoman er eins og áður sagði einstök. Vínið er mjög dökkt, svarbrúnt á lit, eins og dökkur viður eða kaffi. Það er líka kaffiangan í nefinu ásamt þurrkuðum ávöxtum, rúsínum, sveskjum og döðlum, þarna eru líka krydd á borð við kaffi og negul. Mjög sætt og þykkt í munni (þetta er eitt sætasta vín sem er framleitt) en það hefur einnig nokkra sýru sem gerir vínið léttara en maður á vona. Alveg hrikalega flott og margslungið sérrí. Það er eflaust ekki allra, þetta er mjög sætt vín. Þetta er vín sem hægt er að bera fram með eftirréttum úr súkkulaði, sem eru oft vandamál þegar vín eru annars vegar.

Það má síðan líka nota það í eftirréttinn. Þetta er til dæmis fullkomið vín í uppskriftina ís með sérrírúsínum.

3.699 krónur. Fæst í fríhöfninni í Leifsstöð. (hálfflaska)

Deila.