Ég varð að finna eitthvað til að hafa með öllu þessu brauði sem ég bakaði um helgina og datt í huga að snara í súpu. Reyndar er ég ein af þeim sem vex í augum að gera góða súpu, ég hef nefnilega þá ranghugmynd að ekki sé hægt að snara í súpu. Mér áskotnuðust gulrætur sem ég keypti í fjáröflunarskyni og svo hafði ég keypt guðdómlega fallegt lífrænt sellerí hjá Frú Laugu sem gerði, í krafti stærðar sinnar og grænku, gys að óæðri systkinum sínum sem fást föl og plastinnpökkuðum hjá stórmörkuðum landsins. Eitthvað varð að gerast við þetta og leitaði ég í smiðju Jane Brody enn og aftur (ég leyfi nú mynd af kerlingunni að fylgja með) og ákvað að búa til gulrótarsúpu sem hefur alltaf reynst vel. Hún leyfir gulrótunum að njóta sín til fulls og er skemmtilega hógvær á bragðið:
-
2 msk. ólífuolía
-
½ kíló gulrætur
-
1 stór laukur
-
2 stórar kartöflur
-
300 gr. sellerí – eða ca. 2 bollar saxaðir
-
1 hvítlauksgeiri
-
½ tsk. sykur
-
4 heilir negulnaglar
-
4 bollar kjúklingasoð
-
Salt og pipar til að smakka til
Þetta er frekar auðvelt og sannar það fyrir mér enn og aftur að það er auðveldara en maður heldur að snara í góða súpu, sérstaklega ef matvinnsluvél er nýtt til að saxa allt niður.
-
Skerið allt grænmeti í viðráðanlega bita sem þýðir að þið annað hvort rennið þessu í gegnum matvinnsluvél sem sneiðir þetta frekar þunnt, eða þið saxið þetta í munnstóra bita. Ég hef stundum verið mjög löt og þóst vera með mjög stóran munn, það hefur ekki haft teljanleg áhrif.
-
Hitið olíuna í góðum og stórum pott og setjið gulrætur, lauk, kartöflur og sellerí út í. Leyfið að veltast þar í 2-3 mínútur eða þangað til að þið eruð búin að finna hvítlaukinn og sykurinn sem má bæta við og steikja svo á milli hita í ca. 7-8 mínútur í viðbót.
-
Bætið smá svörtum pipar og neglunöglum við ásamt kjúklingasoði. Ef þið eigið ekki kjúklingasoð er fullkomlega leyfilegt að nota kraft og vatn. Hitt er að sjálfsögðu betra.
-
Náið upp suðu en lækkið svo að þetta malli rétt í ca. 15-20 mínútur eða þar til grænmetið er mjúkt. Ef þið eruð með mjög fínskorið grænmet, þá tekur þetta styttri tíma.
-
Takið negulnagla úr – en það er frekar mikilvægt. Farið með töfrasprota í pottinn til að mauka hana vel. Ef þið eigið ekki slíka græju má setja hana í blender eða matvinnsluvél en gerið það í skömmtum og ekki hafa of miklar áhyggjur að koma vökvanum í græjuna, bara grænmetinu. Hrærið vel saman.
-
Gott er að bera súpuna fram með slettu af grískri jógúrt og saxa svolítið af ferskri steinselju yfir. Það er ómetanlegt að hafa gott brauð með – heimabakað er best að sjálfsögðu.