Haukur Heiðar: Úlfur Úlfur! Ekkert plat!

Frá stofnun hefur Borg brugghús verið mjög duglegt við að kynna nýja bjórstíla en einnig búið til hefðir. Hefðin í kringum Surt er orðin rík og 3. árið í röð biðu menn fyrir utan Vínbúðir í röð eftir veigunum. Núna er ný hefð komin af stað, en það er sala á Úlf Úlf Double IPA þann 1. apríl. Hinn “venjulegi” Úlfur hefur verið söluhæsti bjór Borgar í þó nokkurn tíma og því er skemmtilegt að “stóri bróðir” mæti einu sinni á ári.

Saga IPA stílsins verður ekki rakin í þessum pistli enda hefur áður verið fjallað um hinn skemmtilega IPA bjórstíl hér á Vinotek og má lesa nánar um hann með því að smella hér. Hins vegar er saga double IPA ekki síður ansi skemmtileg  sem og áhugaverð tengsl Borgar við þennan bjórstíl.

Maður einn í Kaliforníu, Vinnie Cilurzo,  er almennt talinn upphafsmaður bjórstílsins double IPA. Hann rekur brugghúsið Russian River í miðju “ vín mekka“ Bandaríkjanna. Vinnie hefur árum saman verið talinn einn allra besti bruggari Bandaríkjanna þökk sé súru bjórunum sem hann bruggar og einnig humlasprengjunum Pliny The Elder og Pliny The Younger. Sagan segir að dag einn árið 1994 hafi hann hent tvöföldu magni í lögun af því hráefni sem fer í venjulegan IPA. Útkoman var gríðarlega kraftmikið öl sem fór algjörlega á flug þegar hann kynnti afurðina á brugghúsinu sínu. Sturlaugur Jón Björnsson, annar bruggara Borgar, lærði einmitt hjá Vinnie Cilurzo í Russian River. Sumir bjórnördar vilja líkja þessu við að Michael Jordan kenni manni körfubolta. Því er afar skemmtilegt að þessi bjórstíll rati inn á borð til Íslendinga einu sinni á ári.

Þetta er fallegur bjór í glasi og nánast kallar á þig. Rafgullinn með ör þunnum haus meðfram glas barminum. Í nefi eru framandi ávextir, einkum greipaldin. Í munni er hann léttur miðað við áfengismagn en fylgir ávaxtakeimnum eftir með gríðarlegri beiskju sem lifir lengi í munni.

Það skal taka strax fram að þetta er bjór sem alls ekki á að geyma. Humlarnir njóta sín best þegar bjórinn er ferskur og þegar þetta er skrifað er þetta afar góður bjór!

Deila.