India Pale Ale

Þegar heimur bjórsins er skoðaður lærir maður fljótt að til er aragrúi af mismunandi bjórstílum, einn af þeim vinsælli meðal bjóráhugafólks er líklega India Pale Ale eða IPA til styttingar. Bjórstíll þessi tilheyrir ölfjölskyldunni, þ.e.a.s hann er gerjaður við hærra hitastig en lagerinn og oftast notað svokallað ölger. Við þessar aðstæður fær gerið að njóta sín til fulls og losar ekki bara kolsýru og vínanda í bjórinn við gerjunina heldur einnig estera og annað gúmmilaði. Það eru þessir esterar sem gera bjórinn svo mun bragðmeiri og skemmtilegri en hinir látlausu og stílhreinu lagerbjórar eru þekktir fyrir. Annað sem gerir IPA stílinn skemmtilegan er mikil beiskja sem stafar af miklu magni af humlum og sérlega beiskum humalgerðum. Bjór þessi er því afar bragðmikill, beittur og dálítið krefjandi fyrir óvana bragðlauka. Áfengismagn er svo oftast örlítið hærra en við eigum að venjast í venjulegum lager. Við Íslendingar höfum þar til frekar nýlega ekki haft tækifæri til að kaupa þennan bjórstíl heima á Íslandi en Borg brugghús bjargaði málunum og kom með fyrsta íslenska IPA bjórinn á markað fyrir um ári síðan. Sá heitir Úlfur og er virkilega góður fulltrúi þessa stíls og hefur meira að segja unnið til verðlauna á erlendum vettvangi. Gæðingur hefur svo fylgt í kjölfarið með Tuma Humal sem einnig er flottur IPA.

Úlfur Úlfur

Á næstu dögum ætlar Borg svo að gera enn betur og koma með öflugari útgáfu af Úlfi, 9% imperial IPA sem þeir kalla Úlfur Úlfur. Imperial IPA er eins og nafnið bendir til öflugari útgáfa af venjulegum IPA. Stíllinn er töluvert humlaður og er oft töluvert beiskari fyrir vikið. Hann er einnig hærri í áfengisprósentum og nær stundum 10-11% eða jafnvel enn hærra. Til þess að fá bjórinn svona sterkann þarf mikið af malti. Malt er sætt og því er Imperial bjórinn oft dálítið sætari en sá venjulegi. Þetta er einnig þróttmikill bjór með mikinn þéttleika og fyllingu og beiskjan er yfirleitt í góðu jafnvægi við sætann undirtóninn frá maltinu. Bjórinn verður því ekki of sætur eða of beiskur, nema jú ef menn eru viljandi að stuða bragðlaukana eins og vinsælt er orðið nú til dags.

Indland kemur við sögu
Allir þessir bjórstílar eiga sér sögu sem gaman er að þekkja deili á þegar maður gæðir sér á bjórnum. IPA sagan er sérlega skemmtileg eins og hún er oftast sögð. India Pale Ale, já þetta hljómar afskaplega framandi og rómantískt, Indland virðist klárlega koma þarna við sögu. Tengingin við Indland er sú að í upphafi 18. aldar voru Englendingar á fullu í útþenslu sinni um víða veröld og voru m.a. allsráðandi í Indlandi. Þar voru breskir hermenn, sjóliðar og nýlendubúar sem kröfðust þess að geta notið góðs bjórs eins og þeir voru vanir. Bretar vildu með öllu móti halda sínu fólki glöðu og góðu en vandamál á þessum tíma var hins vegar að kælitæknin var ekki komin til sögunnar og siglingar frá Englandi, niður í kringum Góðrarvonarhöfða í Afríku og loks upp til Indlands tóku amk 6 mánuði. Bjór og önnur ferskvara átti því erfitt með að skila sér á leiðarenda í því ástandi sem ætlast var til. Hann einfaldlega skemmdist á leiðinni. Þetta var vandamál sem þurfti að leysa. Á þessum tíma var vel þekkt að hægt var að geyma bjór í marga mánuði jafnvel ár með því að hafa hann áfengisríkann og vera óspar á humlana en einn af mörgum kostum humalplöntunnar eru bakteríuhemjandi eiginleikar hennar. Svokallað ljósöl eða pale ale var tiltölulega nýkomið fram á þessum tíma þökk sé iðnbyltingunni sem gaf af sér tækni til að ráða betur við þurrkunina á maltinu. Fram til þessa var allur bjór nefnilega brúnn eða svartur. Þetta nýja útlit á bjórnum þótti afar flott tilbreyting og varð gríðarlega vinsælt og átti eftir að leiða af sér vinsælasta bjórstíl veraldar í dag, pilsnerinn.

Þurfti að lifa af langa siglingu
En aftur að vandamálinu, bjórgerðarmenn í London kepptust nú við að skapa bjór sem gæti lifað af þessar löngu siglingar til Indlands. Á þessum tíma þekktu menn vel svo kallað oktober öl sem var ljóst öl (pale ale), það var áfengisríkt og vel humlað og geymdist í marga mánuði og upp í ár án vandræða. Líklega notuðu menn þennan bjórstíl sem grunn í tilraunum sínum og aðlöguðu hann svo að útflutningnum til Indlands. Afraksturinn varð loks humlað ljósöl sem stundum var kallað Indlands ljós öl eða India Pale Ale.
Það er dálítið á huldu hvenær þessi bjórstíll kom fyrst fram á sjónarsviðið og hver kom fyrst með uppskriftina. Það skiptir kannski ekki höfuð máli en náungi að nafni Georg Hodgson er jafnan nefndur sem frumkvöðull IPA stílsins, eitthvað sem ekki er endilega rétt. Hann var hins vegar sá bruggari sem náði yfirráðum á indverska markaðnum á sölu IPA á seinni hluta 18. aldar. Þó svo að Hodgson hafi verið sniðugur og duglegur að koma sinni vöru að þá var hann alls ekki sá eini sem bruggaði pale ale fyrir Indlandsmarkað og heldur ekki sá fyrsti en vísbendingar eru um að stíllinn hafi á einhverju formi verið fluttur til Indlands töluvert áður en Hodgson kom til sögunnar og haslaði sér völl. Stíllinn varð amk til og það er það sem skiptir máli. Dagsetningin er einnig óljós en oft er stuðst við 1785 sem er sú dagsetning þegar hinn „nýji“ pale ale birtist í fyrsta sinn sem auglýsing í dagblaðinu Calcutta Gazette. Reyndar var þetta líka í fyrsta sinn sem þetta fyrsta dagblað í Indlandi birtist nýlendubúum. Bjórinn var kominn til sögunnar töluvert áður. Það er því ýmislegt á huldu í þessum efnum, menn eru meira að segja ekki alveg klárir á því hvernig upphaflegi IPA stíllinn bragðaðist í raun og veru. Það er svo sem ekki skrítið, í dag eru menn t.d. lítið í því að láta bjór sinn þroskast í skipum í 6 mánuði í veltingi ,breytilegu hitastigi og raka áður en hann fer á markað. Hvaða áhrif hefur það t.d. á bjórinn? Vitað er að bjórinn var mjög humlaður og líklega töluvert beiskari en algengt er í dag. Áfengið líklega í kringum 6.5 – 7% og humlar í upphafi af enskum uppruna.

Náði vinsældum í Englandi
Annað sem vert er að nefna hér er að á þessum nýlendutíma var IPA ekki eini bjórstíllinn sem drukkinn var á Indlandi. Auglýsingar í Indverskum dagblöðum benda til þess að drukkinn var m.a. porter, brúnöl (brown ale) ásamt pale ale. Þessir bjórar voru einnig með nægilegar prósentur til að verja bjórinn fyrir skemmdum. Hodgson flutti meira að segja sjálfur út porter til landsins.
Nóg um það, vinsældir IPA stílsins jukust skjótt og menn komust á bragðið heima í Englandi. Stundum er sagt að Englendingar hafi „uppgötvað“ stílinn þegar bjór úr skipum sem strönduðu skömmu eftir brottför á leið til Indlands hafi rekið á land eða verið seldur heima á Englandi til að koma einhverju í verð. Líklega einhver sannindi þar að baki, skip strönduðu stöðugt á þessum tíma og viturlegt hefur verið að reyna að koma einhverju af farminum í verð í stað þess að hella honum. Annars er eins líklegt að menn hafi einfaldlega bara bruggað þennan bjór fyrir Englandsmarkað. Hvað sem því líður þá varð stíllinn vinsæll heima við og farið var að brugga hann í stórum stíl. Svo stórum jafnvel að humalframleiðsla landsins dugði ekki til og menn þurftu að flytja inn humla frá Evrópu og jafnvel Ameríku til að anna eftirspurninni. IPAinn á heimavelli var hins vegar ekki eins öflugur og sá sem fluttur var út, ekki þurfti að geyma bjórinn og því var hægt að hafa minna af humlum og vínanda. Heimsstyrjöld, skattar og hráefnisskortur stuðlaði einnig að því að bruggarar drógu töluvert úr „mætti“ bjórsins, minni humlar og minna áfengi þýddi minni kostnaður.
Vinsældir IPA og pale ale héldu hins vegar áfram að aukast í Englandi og víðar.

IPA í Bandaríkjunum

Stíllinn barst einnig til Bandaríkjanna en undir lok 19. aldar voru bruggarar þar í landi farnir að gera sína eigin útgáfur af stílnum. Í dag fæst þessi flotti bjórstíll um allan heim og nýtur mikilla vinsælda meðal bjóráhugamanna. Bjórinn er líklega allt örðuvísi en sá upprunanlegi var, menn brugga sína eigin túlkun á stílnum og ekki er farið eftir neinum föstum mótum. Amerískur IPA er t.d. töluvert öðruvísi en sá breski. Meira að segja er mikill munur á IPA frá Austur- og Vesturströnd Bandaríkjanna. Ólíkt því sem áður var þá er það ferskleiki sem allt snýst um þegar kemur að IPA í dag. Bjórinn tapar nefnilega fljótt humalkarakter sínum við geymslu og verður ekki eins beittur, hann er bestur beint af kúnni. Líklega eru amerísku útgáfurnar vinsælastar meðal bjórnörda í dag. Bæði er það vegna amerísku humlanna svo sem Cascade, Amarillo ofl sem þykja sérlega ljúfir en einnig spilar hugmyndaflug amerísku örbruggaranna stóra rullu en þeir eru gjarnir á að brjóta allar „reglur“ í bjórgerð. Bjórstílar eru stöðugt í þróun og það á einnig við um IPA og oft á tíðum er erfitt að setja einhvern bjór í ákv bjórflokk. Í dag er t.d. hægt að fá hveiti IPA, black and tan (IPA blandað í stout í hlutfallinu 1/1), IPA með villigeri (brettanomyces), Imperial IPA (t.d. Úlfur Úlfur), Doubbel IPA (DIPA) ofl. Aðeins hugmyndaflugið setur hömlurnar.

Já svo mörg voru þau orð, nú er svo bara um að gera að fara að rannsaka þennan bjórstíl og finna hvaða bjór best fellur að manns eigin smekk.

Bjórbókin, 2013/4/17 R. Freyr Rúnarsson <freysalingur@gmail.com>

Deila.